Claire Bretécher (1940-2020) var áhrifamikill franskur myndasöguhöfundur. Hún fæddist í Nantes í Frakklandi. Myndasögur hennar fjalla yfirleitt með gamansömum hætti um fjölskyldulíf, samskipti kynjanna og hlutskipti kvenna. Bretécher var oft kennd við femínisma, en sjálf gerði hún yfirleitt lítið úr því. Á sjöunda og áttunda áratuginum varð hún fyrst kvenmyndasöguhöfunda til að hasla sér völl í fremstu röð í myndasögugerð í Frakklandi og starfaði þá fyrir vinsælustu fransk-belgísku myndasögutímaritin eins og Sval (f. Spirou) og Tintin. Meðal þekktustu verka Bretécher eru myndasögurnar um viðskotaillu táningsstúlkuna Agrippínu (f. Agrippine) sem Bretécher gaf sjálf út á árunum 1988-2009 og nutu mikilla vinsælda víðs vegar um Evrópu. Eftir þeim sögum var framleidd teiknimyndasería fyrir sjónvarp á vegum Canal+ á árinu 2001.

Claire Bretécher árið 1973.

Ein myndasaga eftir Bretécher, Beðið eftir kaffinu, kom út á vegum bókaútgáfunnar Litlu gulu hænunnar á árinu 1988 í íslenskri þýðingu Jakob Andersen. Skrýtlurnar í bókinni birtust upprunalega í myndasögutímaritinu Pilote á árunum 1971-1973 og komu út í bókarformi árið 1973 undir heitinu Salades de saison. Íslenska útgáfan styðst þó við danskar útgáfur Interpresse frá árinu 1983 (Mens vi venter på Café au Lait og Mixet salat).

Tenglar breyta

https://www.lambiek.net/artists/b/bretecher.htm Sótt 3.5.2022