Brautarholt

Brautarholt er stórbýli og kirkjustaður á Kjalarnesi. Þar er Brautarholtskirkja sem var reist árið 1857. Frá árinu 2012 hefur golfvöllur verið starfræktur á hluta jarðarinnar.

Brautarholtskirkja á Kjalarnesi.

SagaBreyta

Í Kjalnesinga sögu er saga landsnáms Helga Bjólu á Kjalarnesi. Hann lét Andríði, írskum manni, Brautarholt eftir til bústaðar. Úti fyrir ströndinni er Andríðsey en þar er friðað varp.

Katólskar kirkjur voru helgaðar Nikulási og tilheyrðu Kjalarnesþingum. Bjarni Thorarensen, skáld og brautryðjandi rómantísku stefnunnar á Íslandi, fæddist að Brautarholti. Bjarni varð amtmaður fyrir Norður- og Austurland árið 1833 og gegndi embættinu til dauðadags.

Bóndinn í Brautarholti lét reisa Brautarholtskirkju árið 1857. Kirkjusmiður var Eyjólfur Þorvarðarson frá Bakka á Kjalarnesi. Séra Matthías Jochumsson þjónustaði kirkjuna frá 1867 til 1873. Árið 1958 og aftur árið 1987 voru gagngerar viðgerðir gerðar á kirkjunni.

Ólafur Bjarnason keypti búið árið 1923 og synir hans tóku við því á 6. áratugnum. Frá árinu 1964 var starfrækt grasmjölsverksmiðja og síðar graskögglaverksmiðja frá 1972 til ársins 2000 að Brautarholti. Árið 1982 var þar svo komið upp svínabúi og síðar kjúklingabúi. Jón Ólafsson frá Brautarholti var umsvifamikill í svína-, kjúklinga- og eggjaframleiðslu næstu árin og áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins. Sonur hans, Kristinn Gylfi Jónsson, rak áfram hænsnabú eftir 2000, en árið 2016 kom Brúneggjahneykslið upp þar sem aðbúnaður dýra reyndist ófullnægjandi.