Björn Þorsteinsson (ábóti)
Björn Þorsteinsson (d. 1341) var príor í Þingeyraklaustri, ábóti í Munkaþverárklaustri frá 1334 til 1340 en varð þá ábóti í Þingeyraklaustri og gegndi því embætti þar til hann dó ári síðar.
Björn var príor í Þingeyraklaustri og leysti Guðmund ábóta af þegar hann sigldi til Noregs 1318 til að reka mál klaustursins gegn Auðuni rauða Hólabiskupi fyrir erkibiskupi. Samkvæmt því sem Jón Espólín segir í Árbókum sínum reyndi Auðun þá að sækja Þingeyraklaustur heim:
„Auðun rauði biskup fór vestur sveitir haustið 1318 og kom til Þingeyra, læstu þá bræður klaustri og kirkju, og gerðu enga processionem í móti honum, og ei náði hann við þá að mæla, var þá Björn príor fyrir klaustrinu, höfðu bræður þar fyrir fjölda bænda að verja klaustrið fyrir biskupi ef hann vildi ásækja, en hann sýndi enginn líkindi af sér, matur var þó hans mönnum til reiðu en eigi öl að drekka.“
Guðmundur kom aftur tveimur árum síðar og tók við stjórn klaustursins að nýju en Auðun biskup var þá farinn til Noregs og lést þar.
Björn varð ábóti í Munkaþverárklaustri 1334. Þegar Guðmundur ábóti lét af störfum 1338 fór hann þangað og dó þar ári síðar. Ábótalaust var á Þingeyrum frá því að Guðmundur fór þaðan en 1340 flutti Björn sig aftur til Þingeyra og varð ábóti þar. Hans naut þó ekki lengi við því hann dó ári síðar. Eftir lát hans stýrði Þorgeir príor klaustrinu til 1344 en þá varð Eiríkur bolli ábóti.