Bankaránið á Norrmalmstorgi

Bankaránið á Norrmalmstorgi var bankarán og gíslataka á Norrmalmstorgi í Stokkhólmi í Svíþjóð í ágúst 1973. Stokkhólmsheilkennið, þar sem gísl fær samúð með gíslatökumanni, er kennt við þetta rán. Ránið hófst með því að sænski smáglæpamaðurinn Jan-Erik Olsson reyndi að ræna Kreditbanken í miðborg Stokkhólms þann 23. ágúst 1973. Sænska lögreglan kom strax á staðinn en Olsson skaut á þá lögreglumenn sem komu inn. Hann tók fjóra gísla og krafðist þess að vinur sinn, síbrotamaðurinn Clark Olofsson, fengi að koma til hans. Olofsson var sóttur í fangelsi og sendur til Olssons til að reyna að semja um lausn gíslanna. Einn gíslanna, Kristin Enmark, sagðist vera örugg hjá gíslatökumönnunum og lýsti áhyggjum af því að aðgerðir lögreglu gætu leitt til ofbeldis. Olsson og Olofsson lokuðu sig nú inni í bankahvelfingunni ásamt gíslunum. Olsson hringdi í Olof Palme forsætisráðherra og sagðist myndu myrða gíslana ef þeir fengju ekki að fara. Þann 26. ágúst boraði lögregla gat á hvelfinguna en Olofsson skaut tvisvar í gegnum gatið og særði lögreglumann í annað skiptið. Þann 28. ágúst var táragasi hleypt inn í hvelfinguna og um hálftíma síðar gáfust Olsson og Olofsson upp.

Húsið þar sem ránið átti sér stað.

Olsson og Olofsson voru báðir dæmdir til langrar fangavistar eftir ránið. Þeir hafa báðir framið glæpi síðan. Málið vakti athygli fyrir það hvernig gíslarnir virtust hafa fengið samúð með gíslatökumönnunum. Sænski afbrotafræðingurinn Nils Bejerot bjó til hugtakið „Stokkhólmsheilkenni“ yfir þetta fyrirbæri.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.