Panulirus Cygnus
Panulirus Cygnus er humartegund sem lifir við vesturströnd Ástralíu.
Panulirus Cygnus | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
| ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
|
Útlit
breytaÆttin sem tegundin tilheyrir heitir á ensku spiny lobster vegna þess að á búk og andliti humranna eru hundruðir lítilla gadda sem snúa fram til að vernda skepnuna, auk tveggja stórra gadda sem eru framan á höfðinu. [1] Ástralski svipuhumarinn hefur 5 sett af fótum, þeir eru þá 10 í heildina. Augun sitja á hreyfanlegum stilkum sem koma upp úr höfðinu og fram úr höfðinu koma 2 fálmarar. Í kringum munn humarsins eru 6 litlir útlimir sem hjálpa honum að fanga og éta mat. Skel humarsins er fjólublá/brún að lit en getur verið allt frá því að vera frekar ljós og yfir í mjög dökkan lit með ljósa bletti á kviðnum. Á bæði fótleggjum og fálmurum eru ljósar rendur. [2]
Humarinn getur orðið allt að 5 kg þungur og 20 ára gamall. [1]
Það er sjáanlegur munur á milli kynjanna, en auðveldast er að átta sig á kyninu út frá fimmta settinu af fótleggjum. Kvendýrið hefur gripklær framan á fimmta pari fótleggjanna en karldýrið ekki. Annað sem er ólíkt milli kynjanna er staðsetningin á gotraufinni. Hjá kvendýrinu er gotraufin staðsett neðan við þriðja fótaparið, en hjá karldýrinu er hún neðan við fimmta fótaparið. Auk þess er kvendýrið með innri og ytri sundfætur þar sem hún geymir hrognin en karldýrið hefur einungis fjögur sett af einföldum sundfótum. [2]
Sérkennilegt er við humarinn að það eru ákveðnir eitlar í karldýrinu sem losa hormón sem ýtir undir þróun á karlkyns kynfærum. Þegar þessir eitlar eru græddir í kvendýr þá skiptir það um kyn. Eggjastokkarnir breytast í eistu og einstaklingurinn fer að mynda svil í stað þess að mynda hrogn. Við næstu hamskipti hverfur kvenlegt útlit útlima humarsins og einstaklingurinn fer að líkjast karldýri. [2]
Skynfæri humarsins
breytaHumrarnir hafa augu og nota þau til að sjá hvert ferð sinni er heitið. Rannsóknir hafa hins vegar leitt það í ljós að humrarnir þurfa ekki á sjóninni að halda til þess að komast leiðar sinnar og enda á réttum áfangastað. Talið er að þeir notist við segulsvið jarðar til þess að rata líkt og fuglar gera. [2] Í leit sinni að æti þreifar humarinn fyrir sér með fálmurunum, bragðar á sjónum í gegnum fæturna og finnur lykt með litlu útlimunum sem eru við munninn. [3]
Ástralski humarinn hefur sérstaka leið til að framkalla hljóð, en þetta hljóð er frekar ónotalegt og líkist því einna helst að klórað sé í krítartöflu. Þetta hljóð er framkallað með því að renna stuttu fálmurunum við munninn yfir ójöfnur sem eru sitthvorum megin á höfði humarsins. Vísindamenn telja að humrarnir heyri þessi hljóð afar illa eða jafnvel alls ekki, og því er ólíklegt að þetta sé þeirra leið til að tala saman innan tegundarinnar. Líklegra er að þetta sé notað til þess að hræða í burtu rándýr. Þeir geta framkallað þessi hljóð strax eftir hamskipti þó að skel humarsins sé ennþá mjúk, en einmitt þá eru þeir viðkvæmir og auðveld bráð. [2]
Lífsferillinn
breytaEftir að 2 mm langar lirfurnar hafa klakist út berast þær út á rúmsjó með hafstraumum og eru þar í 9-11 mánuði á lirfustigi. Þegar lirfustiginu líkur eru þetta um 35 mm langir smáhumrar sem berast aftur að landgrunninu með vindum og hafstraumum. Stór hluti hópsins lifir þetta ferðalag ekki af. Þeir eru annahvort étnir eða berast ekki á réttan stað og ná ekki að setjast að í rifjunum þar sem humrarnir byrjar svo nýjan kafla í lífi sínu. Smáhumrar éta ekkert á leiðinni til baka á landgrunnið. Það er ekki fyrr en á landgrunnið er komið sem að humarinn fer að mynda rauða litinn sem við tengjum við hann. [3]
3-4 árum eftir að þeir koma á landgrunnið fara humrarnir í hamskipti seint um vorið og skelin þeirra verður þá kremlituð eða föl bleik. Þetta tímabil er á ensku kallað „whites migration“. Þegar hamskiptunum er lokið halda þeir aftur út á haf á vit nýrra ævintýra á hrygningarsvæðunum. [3]
Fjölgun
breytaÞegar humrarnir fjölga sér býr karlinn til sæðispoka sem hann festir neðan á kerlinguna, við aftasta fótapar hennar. Sæðispokinn er svartur og er oft talað um hann sem tjörublett. Kerlingin geymir pokann þar til að hún er tilbúin að hrygna, þá klórar hún í tjörublettinn til að losa um svilin. Hrognin frjóvgast þá og renna aftur með hala hrygnunnar þar sem þau festast á sundfæturna undir hala hennar. Hrognin eru undir hala hrygnunnar í 4-8 vikur þar til þau klekjast út, en þessi tími stjórnast af hitastigi sjávar. Hrognin þroskast fyrr í heitum sjó en köldum og klekjast þá fyrr. [3]
Veiðar og verðmæti
breytaÁstralski humarinn veiðist einungis við vesturströnd Ástralíu og Ástralir eru eina þjóðin sem veiðir hann. Þessar veiðar eru efnahagslega mjög mikilvægar fyrir þjóðina, en humarinn hefur í gegnum tíðina verið verðmætasta tegundin sem veidd er í vestur Ástralíu. [4] Eins og sjá má á grafinu hér til hliðar hafa veiðar á humrinum verið nokkuð stöðugar en jukust þó lítið eitt á tímabilinu 1975 til 2005. Efti 2005 hafa veiðarnar minnkað aftur en eru þó á svipuðu róli og þær voru fyrir hækkunina á áttunda áratugnum. Síðustu ár hafa verið að veiðast u.þ.b. 7.000 tonn á ári af humrinum, en þegar mest var veiddust 14.605 tonn árið 2000.
Humarinn er ýmist fluttur lifandi eða frosinn til Asíu, Bandaríkjanna og Evrópu. Hann er matreiddur á ýmsa vegu en hér eru tenglar á uppskriftasíður Geymt 23 september 2020 í Wayback Machine og leiðbeiningar varðandi eldun humarsins. [4]
Vel er fylgst með veiðunum og einungis handhafar leyfisbréfs mega veiða humarinn. Strangar reglur gilda um veiðarnar og ýmsar takmarkanir, ásamt kvóta, hafa verið settar á til þess að vernda stofninn frá ofveiði. Dæmi um aðgerðirnar sem gripið hefur verið til eru svæðislokanir, takmarkanir á veiðibúnaði og stærð veiðiskipa. Einnig eru hrygnandi kvendýr vernduð og takmarkanir er á stærð humranna sem leyfilegt er að selja á markaði. [5]
Árlegir rannsóknarleiðangrar eru farnir í lok hvers árs þar sem meðal annars er fylgst með því hversu margir smáhumrar eru að koma til baka inn á rifin eftir að hafa eytt fyrsta ári ævi sinnar úti á hafi. Niðurstöðurnar úr þessum rannsóknarleiðangrum gefa til kynna hversu margir humrar komast í veiðistærð 3-4 árum seinna. [6] Undanfarin ár hefur smáhumrum fækkað sem að koma til baka inn á rifin, en það bendir til þess að veiðin muni minnka [7] og gæti verið ástæðan fyrir minnkaðri veiði undanfarin ár.
Árið 2000 hlutu veiðarnar (the commercial West Coast Rock Lobster Managed Fishery - WCRLF) í fyrsta sinn viðurkenningu frá Marine Stewardship Counsil fyrir að vera vistfræðilega sjálfbærar veiðar. Árið 2017 hlutu þau þessa viðurkenningu í fjórða sinn. [7]
Æti
breytaÁstralski svipuhumarinn lifir á þörungum sem finnast í kóralrifjum, dauðum eða dauðvona sjávardýrum sem falla til botns og ýmisskonar lindýrum og krabbadýrum.
Humarinn lifir hinsvegar engu rólyndislífi þar sem hann er ekki efstur í fæðukeðjunni. Margar fiskitegundir borða unga humra, og þeir humrar sem ná fullorðins aldri þurfa að vara sig á kolkröbbum og stærri fiskum. Þeir búa hinsvegar við þann ágæta eiginleika að geta látið sér vaxa nýja fætur og fálmara í stað þeirra sem kunna að detta af eða skemmast í átökum við rándýr. [1]
Tenglar
breytaTilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Rock lobster“. www.fish.wa.gov.au. Sótt 1. apríl 2020.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Saunders, Diana. „Panulirus cygnus“. Animal Diversity Web (enska). Sótt 1. apríl 2020.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 3,3 Department of Fisheries (mars 2011). „Unlocking lobster secrets“ (PDF). Government of Western Australia. Sótt 2020 apríl.
- ↑ 4,0 4,1 „Lobster commercial fishing“. www.fish.wa.gov.au. Sótt 1. apríl 2020.
- ↑ „Lobster management“. www.fish.wa.gov.au. Sótt 1. apríl 2020.
- ↑ „Puerulus settlement index“. www.fish.wa.gov.au. Sótt 1. apríl 2020.
- ↑ 7,0 7,1 „Lobster management“. www.fish.wa.gov.au. Sótt 1. apríl 2020.