Auðgunarbrot eða fjármunabrot er afbrot framið í þeim tilgangi að hagnast fjárhagslega. Auðgunarbrot koma fram í XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot framin í auðgunarskyni beinast yfirleitt að tilteknu verknaðarandlagi og felast brotin í ólögmætri yfirfærslu slíkra verðmæta til annarra einstaklinga eða lögaðila sem ekki hafa umráð yfir þeim. Í þessu felst að í auðgunarbrotum er auðgunarásetningur sem beinist að tilteknu verknaðarandlagi og ólögmætri yfirfærslu verðmætanna. Auðgunarbrot eru ólík en hafa viss sameiginleg einkenni, þau eru tjónsbrot og sum með fullframningarstig fært fram og verðgildi fjármuna þarf ekki að rýrna við brotin heldur færast þau með ólögmætri yfirfærslu fjármuna til einhvers eða einhverra sem ekki á rétt til þeirra. Andlag brotanna hefur alltaf eitthvað fjárhagslegt gildi og því geta verðlausir munir ekki verið verknaðarandlag brotanna. Brotið þarf því að beinast að einhverju verðmæti. Einkenni auðgunarbrota er saknæmisskilyrðið, sbr. ásetningur í 18. gr. hgl. og dugar gáleysi ekki til.