Hvalambur

(Endurbeint frá Ambri)

Hvalambur (einnig nefnt ambur eða ambri) er vaxkennt efni sem verður til í meltingarfærum búrhvala og gengur ýmist niður af þeim sem saur eða upp úr þeim, en það eru helst stærstu klumparnir sem hvalirnir æla. Efnið er í formi þéttra klumpa sem fljóta í sjónum og rekur stundum á fjörur. Stundum finnst það líka í maga dauðra búrhvala.

Hvalambur.

Hvalambursklumpar eru misstórir, sumir aðeins fáein grömm en aðrir um eða yfir 50 kíló. Efnið er upphaflega ljósleitt og af því er megn fnykur en við margra mánaða eða ára velting í sjónum harðnar það smátt og smátt og dökknar, verður dökkgrátt eða svart að lit, og fær sérkennilegan, sterkan ilm. Efnið er brennanlegt og það bráðnar og breytist í vökva við um 62°C. Forn-Egyptar brenndu það ilmsins vegna eins og reykelsi.

Hvalambur var fyrr á öldum notað sem lyf og jafnvel sem krydd í mat og sumir telja það hafa kynörvandi áhrif. Sagt er að egg krydduð með hvalambri hafi verið eftirlætisréttur Karls 2. Englandskonungs. Hvalambur var áður notað við ilmvatnsgerð og í fleiri iðnaðarvörur en nú hafa gerviefni tekið við hlutverki þess að töluverðu leyti. Það er þó enn notað í ýmsar ilmvatnstegundir og er því í mjög háu verði.

Heimildir

breyta
  • „Uppsprettulind Coty-ilmvatnanna á bökkum Signu“. Morgunblaðið, 15. september 1955.