Þingeyjarskóli

grunnskóli í Aðaldal á Norðurlandi. Skólinn er samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli

Þingeyjarskóli er grunnskóli í Aðaldal í Þingeyjarsveit á Norðurlandi. Skólinn er dreifbýlisskóli og samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli. Skólaárið 2022-2023 voru nemendur grunnskóladeildar Þingeyjarskóla 72.

Þingeyjarskóli í Aðaldal er dreifbýlisskóli og samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli. Þar voru 65 nemendur árið 2021.

Stærð

breyta

Árið 2021 voru í Þingeyjarskóla 65 nemendur í 1.—10. bekk. Það ár voru við skólann 43,1 stöðugildi starfsmanna, þar af voru 25,7 stöðugildi kennara.[1]

Þingeyjarskóli er við Hafralæk í Aðaldal í Þingeyjarsveit varð til haustið 2012 við sameiningu Hafralækjarskóla sem var grunnskóli í Aðaldal og Litlu-Laugaskóla sem var grunnskóli í Reykjadal, tónlistardeilda beggja skólanna og leikskólanna Barnaborgar og Krílabæjar. Að endingu árið 2015 flutti öll starfsemin, nema leikskólarnir, í húsnæði Hafralækjarskóla. Starfsstöð Þingeyjarskóla að Litlu-Laugum var þá lokað. Um leið var farið að nota alfarið nafnið Þingeyjarskóli.[2] [3] [4] Skólahald í Hafralækjarskóla hófst hins vegar haustið 1972 og var skólinn þá nýbyggður og þar m.a. rekin heimavist fyrir hluta nemenda.

Skólahúsnæði hefur verið endurbætt fyrir nemendur og kennara. Barnaborg, annar tveggja leikskólanna flutti árið 2019 í húsnæði skólans. Staðsetning leikskólans Krílabæjar er áfram á Laugum. Bókasafnið hefur endurgert og opnað almenningi. Í skólanum hefur verið útbúin aðstaða fyrir frístund og tónlistarnám. Íþróttir eru bæði kenndar í félagsheimilinu Ýdölum sem er við skólann, og að Laugum í Reykjadal. [4]

Þingeyjarskóli er einn þriggja skóla í Þingeyjarsveit. Hinir eru Reykjahlíðarskóli í Mývatnssveit og Stórutjarnaskóli í Ljósavatnsskarði.

Staðsetning

breyta

Þingeyjarskóli er í Aðaldal í Þingeyjarsveit á Norðurlandi. Hann er í húsnæði fyrrum Hafralækjarskóla. Nemendur skólans eru úr Aðaldal og Reykjadal. Skólahverfi Þingeyjarskóla er austan Fljótsheiðar, í Útkinn og nær að Arnþórsgerði í Kinn.[5]

Stjórnun

breyta

Skólastjóri Þingeyjarskóla (2023) er Jóhann Rúnar Pálsson. Hulda Svanbergsdóttir, er teymisstjóri yngsta stigsins og staðgengill skólastjóra; [6] Pétur Ingólfsson er deildarstjóri tónlistardeildar, Birna Óskarsdóttir deildarstjóri Krílabæjar og Nanna Marteinsdóttir deildarstjóri Barnaborgar.

Þar sem um dreifbýlisskóla er að ræða eru skólabílstjórar fimm við Þingeyjarskóla.[7]

Vegna smæðar Þingeyjarskóla er skólastjóri grunnskóla í 70% starfshlutfalli en 10% af starfi skólastjóra eru bókfærð á tónlistardeildina og 20% á leikskóladeildirnar tvær.[4]

Í jákvæðu ytra mati Menntamálastofnunar sem framkvæmt var árið 2019 segir að stjórnendur skólans hafi miklar væntingar til náms og framfara nemenda og hvetji kennara til þróunar kennsluhátta og gæða náms. Lýðræðisleg vinnubrögð þykja einkenna samstarfið í skólanum og starfsmenn finna sig sem liðsheild þar sem hver og einn finnur fyrir mikilvægi. Þá þykja stjórnendur skólans dreifa ábyrgð og gefa skýr skilaboð um umboð og ábyrgð. Mannauður sé vel nýttur og stjórnendur leitist við að styrkja eigin þekkingu og efla leiðtogahæfni annarra.[4]

Nám og kennsla

breyta

Stefna Þingeyjarskóla endurspeglar áherslur sveitarfélagsins svo sem um samvinnu nemenda og kennara milli skólastiga og áherslur á tónlistaruppeldi í grunnskóla. Tónlistarskólinn, sem er samrekinn með grunn- og leikskólanum, skiptir miklu máli í skólastarfinu.[8]

Gildi og einkunnarorð Þingeyjarskóla eru „ábyrgð, virðing og gleði“. Lögð áhersla á markvisst, skapandi og sveigjanlegt nám, með velferð og þroska nemenda í fyrirrúmi. Skólastefna Þingeyjarsveitar kveður á um „…að hafa leikreglur jafnréttis og lýðræðis sem lifandi þátt í skólastarfinu og leitast er við að efla með nemendum samkennd, virðingu, sjálfstraust, félagsfærni, skapandi og gagnrýna hugsun, siðferðiskennd og lífsgleði.“[8]

Í skólanámskrá Þingeyjarskóla segir að hlutverkið sé að stuðla að almennri menntun og þroska allra nemenda. Markmiðið sé að nemendur öðlist góða færni bæði í náms- og félagslegum þáttum:

„Skólinn er vinnustaður nemenda um tíu ára skeið á mikilvægu þroskaskeiði þeirra og því skiptir starfið sem þar er unnið miklu máli. Skólinn er ekki einungis undirbúningur fyrir lífið heldur hluti af lífinu sjálfu… Skólinn er samfélag þar sem allir vinna saman að því að læra, þroskast og taka framförum.“[8]

Auk þess að vera dreifbýlisskóli má segja að sérstaða skólans liggi í áherslum annars vegar á sviðslistir og hins vegar á tækni. Í sviðslistum fá allir nemendur fá kennslu í fjölbreyttum tegundum dansa og settar eru upp leiksýningar nemenda í fullri lengd þar sem nemendur taka þátt í allri uppsetningu og framkvæmd. Nemendur tónlistarskólans sjá um undirspil.[8]

Áhersla á tækni liggur í að nýta tækni í námi og bjóða góðan tækjakost. Nemendur unglingastigs fá allir eigin Ipad til afnota byggður á samningi milli skóla og heimilis. Þá eru bekkjarsett af Ipödum til á mið- og yngsta stigi. Í boði eru þrívíddar prentara, bleksprautuprentarar, vínilskerar, skjávarpar, og sjónvörp í öllum stofum. Skólinn er tengdur ljósleiðara og hefur öflugt þráðlaust net.[8]

Í ytra mati Menntamálastofnunar frá 2019 þykir flest í skólanum hafa gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu um gæðastarf. Árangur náms er oft yfir landsmeðaltali. Flestir eða allir þættir sterkir. Þó eru nefndir nokkrir möguleikar til umbóta.[4]

Í Þingeyjarskóla er unnið eftir uppeldisstefnu sem kallast „Jákvæður agi“ (Positive discipline).

Skólabragur og hefðir

breyta

Smæð skólans og dreifbýlið mótar skólabraginn. Skólastjóri tekur á móti nemendum á hverjum morgni þegar þeir koma með skólabílum. Hann á við nemendur jákvæð persónuleg samskipti. Þá koma eldri borgarar í samfélaginu reglulega í skólann og nýta sér aðstöðu og félagsskap þar. Góð mæting er úr samfélaginu á þá viðburði sem skólinn býður til.[4]

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. „Rekstur leik- og grunnskóla“. Samband íslenskra sveitarfélaga. Sótt 8. ágúst 2023.
  2. „Morgunblaðið - Sunnudagur - 9. ágúst (09.08.2015) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. ágúst 2023.
  3. „Morgunblaðið - 234. tölublað (06.10.2012) - Tímarit.is“. timarit.is. Sótt 10. ágúst 2023.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 Svanfríður Jónasdóttir og Þórdís Hauksdóttir (2019). „Menntamálastofnun: Ytra mat grunnskóla: Þingeyjarskóli vorönn 2019 - Ytra mat unnið á vegum Menntamálastofnunar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Þingeyjarsveit“ (PDF). Menntamálastofnunar. Sótt 10. ágúst 2023.
  5. Þingeyjarsveit (6.október 2016). „Reglur Þingeyjarsveitar um skólaakstur í grunnskóla“ (PDF). Þingeyjarsveit. Sótt 10. ágúst 2023.
  6. Þingeyjarsveit. „Starfsmenn“. Þingeyjarskóli. Sótt 10. ágúst 2023.
  7. Þingeyjarsveit. „Skólaakstur“. Þingeyjarskóli. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. ágúst 2023. Sótt 10. ágúst 2023.
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 8,4 Þingeyjarskóli (2022). „Skólanámskrá Þingeyjarskóla 2020-2022“ (PDF). Þingeyjarskóli. Sótt 10. ágúst 2023.