Útvarpsstöðin á Sjónarhæð
Útvarpsstöðin á Sjónarhæð er önnur útvarpsstöðin sem stofnuð var á Íslandi. Stöðin var rekin á vegum Sjónarhæðarsafnaðarins á Akureyri á árunum 1927 til 1929. Útsendingum lauk þegar stöðin fékk ekki endurnýjað starfsleyfi sitt.
Aðdragandi
breytaÚtvarpsstöðin á Sjónarhæð var hugarfóstur breska trúboðans Arthurs Gook. Hann hafði fengið köllun frá Guði um að halda til Íslands og boða guðsorð. Árið 1905 kom Gook til landsins, settist að á Akureyri og stofnaði Sjónarhæðarsöfnuðinn, sem enn starfar.
Eftir að hafa lesið sér til um útvarpstæknina, komst Gook að þeirri niðurstöðu að hana mætti nýta til trúboðs í strjálbýlu landi eins og Íslandi. Hann sótti um leyfi landssímastjóra til útvarpsreksturs árið 1925 og fékk það skömmu síðar.
Gook bað safnaðarfélaga sína í Bretlandi um stuðning við kaup á útvarpsstöð og fékkst fullbúin stöð send hingað til lands fyrir gjafafé þeirra í september 1927.
Rekstur stöðvarinnar
breytaUm leið og stöðin kom til Akureyrar var hún sett upp og útsendingar hófust skömmu síðar. Þegar best lét náðust útsendingarnar víða um land og jafnvel til fjarlægra heimshorna, en oft bar á rafmagnstruflunum sem torvelduðu útsendingu.
Megintilgangur stöðvarinnar var að senda út guðsþjónustur og erindi um trúarleg málefni, en þó átti margt annað að vera á boðstólum s.s. fréttir, veðurfregnir, tónlistarflutningur af hljómplötum, upplestur úr tímaritum, tungumálakennsla o.fl.
Ekki tókst að standa við öll þessi fyrirheit. Rekstur stöðvarinnar var dýr og flókinn, auk þess sem ýmis tæknileg vandamál komu upp. Helst var útvarpað í kringum stórhátíðir og þótti sumum þeirra sem keypt höfðu sér dýr útvarpsviðtæki að Gook hefði tekið fullstórt upp í sig þegar hann lofaði mikilli og fjölbreyttri skemmtidagskrá.
Þessar vanefndir urðu loks til þess að starfsleyfi stöðvarinnar fékkst ekki endurnýjað í desember 1929 og lauk þar með starfsemi hennar. Líklegt má þó telja að hin raunverulega ástæða þess að leyfið fékkst ekki hafi verið sú að unnið var að stofnun Ríkisútvarpsins sem tók til starfa á árinu 1930. [1] [2]