Óbundið mál er texti sem er ekki í bundnu máli, það er að segja ekki undir neinum bragarhætti. Óbundið mál líkist mæltu máli mun meira en bundið mál.

Eftirfarandi er dæmi um íslenskan texta í óbundnu máli:

 
Um morguninn áttum við að fara um borð á skipi því sem átti að flytja okkur yfir Atlantshaf. Nú máttum við ganga nærri eins langan veg eins og þegar við komum til Glasgow. Loksins komum við til skipsins, og lá það með borðstokkinn við bryggjuna, og þurfti ekki annað en stíga framá skipið. (Þess þarf hvergi, hvar sem skip leggja að eða frá landi.)

Þetta var ákaflega stórt skip, Manitoban að nafni, allt úr járni nema í einstöku stað innan. Nú var kominn svo mikill fjöldi fólks af öllum þjóðum, sem ætluðu til Ameríku, Danir, Svíar, Norðmenn, Skotar, Enskir, Þjóðverjar, Frakkar; með þessum skyldum við fara.

Var mönnum sagt að fara niðurí skip og búa þar um sig. Við Íslendingar vórum allir sér í einu herbergi, og var það bærilegt, nokkuð þröngt. Að stundu liðinni vórum við rekin uppá dekk og talin og skoðuð vegabréf okkar. Var okkur svo sagt að fara ofan aftur. Á skipinu vóru í það heila 720 manns. Undir hliðum skipsins báðu megin vóru náðhús, fyrir karlmenn öðru megin, en kvenfólk öðru megin; 7 gátu setið í einu hverju megin, og féll allt ofaní sjó.

 
 
— Úr Vesturfararsögu Guðmundar Stefánssonar, 12. nóvember 1873.
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.