Brasilía (portúgalska: Brasil), opinberlega Sambandslýðveldið Brasilía (portúgalska: República Federativa do Brasil) er stærsta og fjölmennasta land Suður-Ameríku og hið fimmta stærsta í heiminum bæði að flatarmáli og fólksfjölda. Landið er 8.514.877 km² að flatamáli og teygir sig frá ströndum Atlantshafsins að rótum Andesfjalla og innan landamæra þess er megnið af Amasónregnskóginum, stærsta regnskógi heims, en einnig víðáttumikil landbúnaðarsvæði. Strandlína Brasilíu er 7367 km löng.

Söguágrip Frumbyggjar hafa búið á svæðinu sem nú er Brasilía í meira en 11.000 ár. Árið 1500 gerði Pedro Alvares Cabral tilkall til landsins þegar hann kom þangað með flota sínum. Fyrsta fasta búseta Portúgala var um 1532 og nýlendustefna hófst þegar Dom Joao konungur Portúgals skipti landinu í 15 sjálfstæð nýlendusvæði. Þessi skipting skapaði óskipulag og deilur og því lét konungurinn svæðin lúta miðstýrðu valdi. Fyrstu tvær aldir á nýlendutímanum einkenndust af átökum og stríðum milli frumbyggja og Portúgala. Um miðja 16. öld var sykur orðinn mikilvægasta útflutningsvara Brasilíu og þrælar frá Vestur-Afríku mikilvæg innflutningsvara en þeir unnu á sykurplantekrum.

Árið 1808 flutti João VI konungur Portúgals til Brasilíu tímabundið vegna Napóleonsstyrjaldanna. Í byrjun 19. aldar varð spenna á milli brasilískra Portúgala og stjórnvalda í Portúgal sem varð til þess að árið 1822 lýsti Brasilía yfir sjálfstæði og síðar var stofnað keisaradæmi með Dom Pedro sem keisara. Portúgal viðurkenndi sjálfstæði Brasilíu árið 1825.

Árið 1888 var þrælahald afnumið í landinu. Ári síðar var Dom Pedro II komið frá völdum og lýðveldi stofnað. Í lok 19. aldar átti Brasilía í stríðum við nágrannaríki sín, Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ um áhrif og landsvæði. Stríðið við Paragvæ (1864-1870) er það mannskæðasta í sögu Suður-Ameríku.

Í fyrri heimstyrjöld var Brasilía hlutlaust ríki þar til þýskir kafbátar sökktu skipum þeirra á Atlantshafi árið 1917 en þá lýsti Brasilía yfir stríði við Miðveldin. Hlutverk Brasilíu var aðallega eftirlitshlutverk á Atlantshafi.

Árið 1930 náði Getúlio Vargas völdum með aðstoð hersins. Stöðug átök og tilraunir til að taka aftur völdin frá Vargas leiddu til þess að Vargas varð einræðisherra og Estado novo tímabilið hófst þar sem stjórnvöld voru annáluð fyrir ofbeldi og kúgun.

Í seinni heimstyrjöld var Brasilía fyrst um sinn hlutlaust ríki til ársins 1942 þegar landið gekk til liðs við bandamenn eftir að hafa slitið diplómatísk tengsl við Öxulveldin. Eftir heimstyrjöldina vék Vargas vegna þrýstings og lýðræði var komið á. Vargas var kosinn síðar, árið 1951 en eftir stjórnarkreppu framdi hann sjálfsmorð. Lýðræði var viðkvæmt næstu áratugi og árið 1964 frömdu brasilískir herforingjar valdarán gegn stjórn João Goulart forseta undir því yfirskyni að koma í veg fyrir að Brasilía yrði kommúnismanum að bráð. Í Brasilíu ríkti herforingjastjórn til ársins 1985 en á 9. áratugnum var lýðræði smám saman komið aftur á.

Luiz Inácio Lula da Silva var forseti frá 2002 til 2010 þegar fyrsta konan, Dilma Rousseff, varð forseti. Rannsókn á peningaþvætti og spillingu í kringum ríkisrekna olíufyrirtækið Petrobras hefur tekið sinn toll í Brasilísku ríkisstjórninni. Lula da Silva var yfirheyrður vegna málsins og síðar ákærður og fangelsaður. Tugir stjórnmálamanna voru bendlaðir við málið.[1]

Árið 2016 var Dilmu Rousseff vikið úr embætti af öldungadeild þingsins. Samþykkt var að hún sæti ákæru til embættismissis fyrir spillingu. Var hún sökuð um að hafa fegrað efnahagstölur landsins fyrir kosningar. Michel Temer varaforseti tók við embætti forseta.[2]

Árið 2014 var haldin Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu í Brasilíu og árið 2016 voru Ólympíuleikarnir í Río de Janeiro.

Barátta vinstri og hægri afla kristallaðist í árás á brasilíska þingið árið 2023 þegar fylgismenn íhaldsforsetans fráfarandi Jair Bolsonaro réðust þar inn. Árásin minnti á árásina á bandaríkjaþing 2020. Bolsonaro tapaði kosningum fyrir fyrrum forsetanum Lula og flutti til Bandaríkjanna.