Xanana Gusmão

Austurtímorskur stjórnmálamaður

José Alexandre „Kay Rala Xanana“ Gusmão (f. 20. júní 1946), yfirleitt kallaður Xanana Gusmão, er austurtímorskur stjórnmálamaður. Gusmão var áður uppreisnarforingi í sjálfstæðisbaráttu Austur-Tímor gegn Indónesíu og varð fyrsti forseti hins sjálfstæða ríkis Austur-Tímor eftir að hernámi Indónesa í landinu lauk. Hann var forseti frá 2002 til 2007 og varð síðan fjórði forsætisráðherra landsins, frá 2007 til 2015 og aftur frá 2023.

Xanana Gusmão
Xanana Gusmão árið 2023.
Forsætisráðherra Austur-Tímor
Núverandi
Tók við embætti
1. júlí 2023
ForsetiJosé Ramos-Horta
ForveriTaur Matan Ruak
Í embætti
8. ágúst 2007 – 16. febrúar 2015
ForsetiJosé Ramos-Horta
Taur Matan Ruak
ForveriEstanislau da Silva
EftirmaðurRui Maria de Araújo
Forseti Austur-Tímor
Í embætti
20. maí 2002 – 20. maí 2007
ForsætisráðherraMari Alkatiri
José Ramos-Horta
Estanislau da Silva
ForveriNicolau dos Reis Lobato (1978)
EftirmaðurJosé Ramos-Horta
Persónulegar upplýsingar
Fæddur20. júní 1946 (1946-06-20) (77 ára)
Manatuto, Portúgölsku Tímor (nú Austur-Tímor)
ÞjóðerniAusturtímorskur
StjórnmálaflokkurViðreisnarráð Austur-Tímor (CNRT)
MakiEmilia Batista (1965–1999)
Kirsty Sword (2000– [aðskilin])
Börn5
VerðlaunSakharov-verðlaunin (1999)
Undirskrift

Bakgrunnur breyta

Xanana Gusmão fæddist árið 1946 í þorpinu Laleia nálægt bænum Manatuto á norðurströnd eyjunnar Tímor, sem þá var portúgölsk nýlenda, og var næstelstur átta barna foreldra sinna. Foreldrar hans voru tímorskir en faðir hans hafði aðlagast portúgalskri menningu með því að læra portúgölsku, skírast til kaþólskrar trúar og taka upp portúgalskt nafn. Faðir hans, sem hafði lokið kennaranámi hjá kaþólsku kirkjunni, veitti honum bóklega menntun en móðir hans kenndi honum um menningu og sögu Tímor.[1] Gusmão gekk í jesúítaskóla í Dare í fjögur ár og síðan í menntaskóla í Dili en útskrifaðist aldrei þaðan. Hann gegndi þriggja ára þjónustu í nýlenduher Portúgala og varð síðan embættismaður hjá nýlenduyfirvöldunum.[2]

Sjálfstæðisbarátta Austur-Tímor breyta

Á yngri árum hafði Gusmão lítinn áhuga á stjórnmálum og lét sig dreyma um að verða bóndi eða ljósmyndari.[3] Eftir nellikubyltinguna í Portúgal dróst Gusmão inn í stjórnmálalíf ungmenna í Dili og gekk í austurtímorsku sjálfstæðishreyfinguna Fretilin. Hreyfingin var þá undir miklum áhrifum vinstrisinnaðra stúdenta sem höfðu nýlega snúið heim frá Portúgal en Gusmão stóð í upphafi með hófsamari röddum innan Fretilin og þótti andvígur hvers kyns öfgum.[1] Gusmão var viðstaddur og tók myndir á athöfn 28. nóvember 1975 þar sem Fretilin lýsti yfir sjálfstæði frá Portúgal og stofnun lýðveldis á Austur-Tímor.[1]

Aðeins níu dögum eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna gerði her Indónesíu innrás á Austur-Tímor og hertók landið. Indónesía innlimaði Austur-Tímor formlega næsta ár en Fretilin hélt áfram harðri og blóðugri frelsisbaráttu gegn hernámsliðinu.[4] Gusmão gekk til liðs við skæruliðahreyfingar til að berjast gegn hernámi Indónesa og varð árið 1981 leiðtogi Falintil, hernaðarvængs Fretilin. Á næstu ellefu árum tókst Gusmão að forðast handtöku og hann varð frægur og dáður sem leiðtogi frelsisbaráttunnar gegn Indónesíu.[3]

Árið 1992 var Gusmão handsamaður í Dili og dæmdur í ævilangt fangelsi í Djakarta fyrir niðurrifsstarfsemi. Viðbrögðin gegn fangelsisdómnum í Austur-Tímor voru svo hörð að Suharto, forseti Indónesíu, fann sig knúinn til að milda dóminn í tuttugu ára fangelsisvist. Gusmão hélt áfram að leiða sjálfstæðisbaráttuna úr fangaklefanum og fór einnig að yrkja ljóð og mála myndir, sem leiddi til þess að hann hlaut viðurnefnið „skáldið og stríðsmaðurinn.“[2] Gusmão nýtti jafnframt fangelsisvistina til náms í lögfræði og tungumálum. Árið 1997 fékk suður-afríski forsetinn Nelson Mandela að heimsækja Gusmão í fangelsið og hvatti til þess að hann yrði látinn laus.[4]

Eftir að Suharto var steypt af stóli árið 1998 var loks slakað á klónni í Austur-Tímor og þar efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem landsmenn kusu með miklum meirihluta sjálfstæði undan Indónesíu í stað þess að þiggja aukið sjálfræði innan hennar. Gusmão var í kjölfarið sleppt úr haldi í september 1998 en Sameinuðu þjóðirnar tóku tímabundið við stjórn Austur-Tímor á meðan stofnun nýja ríkisins var undirbúin. Landsmenn litu nánast á Gusmão sem sjálfskipaðan í embætti fyrsta forseta landsins þrátt fyrir að hann hefði áður ekki sagst vilja gerast forseti. Gusmão lét að lokum til leiðast að bjóða sig fram og vann yfirgnæfandi sigur með áttatíu prósentum atkvæða í forsetakosningum í apríl 2002. Gusmão tók við embætti sem forseti Austur-Tímor þegar landið tók við eigin stjórn af Sameinuðu þjóðunum þann 20. maí 2002.[2]

Stjórnartíð breyta

Þrátt fyrir mikla bjartsýni við sjálfstæði landsins gekk hægt á forsetatíð Gusmão að reisa efnahag Austur-Tímor við eftir eyðileggingu hernámsáranna. Árið 2006 kom til ofbeldis í landinu eftir að forsætisráðherrann Mari Alkatiri sagði 600 til 1.500 hermönnum í her landsins upp störfum og hluti þeirra stóð í kjölfarið fyrir blóðugum óeirðum. Óánægju hafði gætt með samsetningu hersins þar sem hann þótti hygla hermönnum úr austurhlutanum, þar sem stuðningsmenn Gusmão höfðu haldið til á tíma sjálfstæðisbaráttunnar.[5] Gusmão krafðist afsagnar Alkatiri, sem hann sakaði um að beita dauðasveitum til að þagga niður í andstæðingum sínum, og hótaði að segja annars sjálfur af sér. Að endingu varð Alkatiri við beiðni forsetans um að segja af sér og José Ramos-Horta tók við af honum sem forsætisráðherra.[6]

Gusmão bauð sig ekki fram til endurkjörs þegar kjörtímabili hans lauk árið 2007 en ákvað að leiða stjórnmálaflokk sinn, Viðreisnarráð Austur-Tímor (CNRT), í þingkosningum landsins. José Ramos-Horta tók við af Gusmão sem forseti þann 20. maí 2007 en Gusmão varð forsætisráðherra eftir þingkosningarnar. Í febrúar 2008 var gerð skotárás á Gusmão á heimili hans í misheppnaðri valdaránstilraun uppreisnarmanna úr hernum. Gusmão slapp ómeiddur en Ramos-Horta forseti særðist alvarlega í annarri skotárás og var tímabundið óvinnufær. Í kjölfarið lýsti Gusmão yfir tveggja daga neyðarástandi og útgöngubanni á meðan valdaránstilraunin var kveðin niður.[7]

Xanana Gusmão sagði af sér sem forsætisráðherra þann 9. febrúar 2015 eftir að hafa leitt Austur-Tímor nánast samfellt frá sjálfstæði landsins.[8]

Gusmão varð aftur forsætisráðherra eftir að flokkur hans vann sigur í þingkosningum árið 2023.[9]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 1,2 Margrét Heinreksdóttir (4. september 2001). „„Þurfum að samræma réttlæti og sættir". Morgunblaðið. bls. 30-31.
  2. 2,0 2,1 2,2 Guðlaugur Bergmundsson (20. apríl 2002). „Forsetinn, skáldið og stríðsmaðurinn“. Dagblaðið Vísir. bls. 12.
  3. 3,0 3,1 „Forsetinn sem vildi verða ljósmyndari“. Morgunblaðið. 28. ágúst 2001. bls. 20.
  4. 4,0 4,1 Margrét Heinreksdóttir (24. maí 1998). „Ekkert lát á hungri, kúgun og mannréttindabrotum á A-Tímor“. Morgunblaðið. bls. 26-27.
  5. Baldur Arnarson (30. maí 2006). „Samstaða íbúa Austur-Tímor að rofna?“. Morgunblaðið. bls. 16.
  6. „Afsögn fagnað á Austur-Tímor“. Morgunblaðið. 27. júní 2006. bls. 14.
  7. „Ramos-Horta úr lífshættu eftir skotárás“. Morgunblaðið. 12. febrúar 2008. bls. 14.
  8. „Gusmao dregur sig í hlé“. RÚV. 9. febrúar 2015. Sótt 16. desember 2021.
  9. „East Timor's independence hero Xanana Gusmao returns to power as prime minister“. AP News (enska). 1. júlí 2023.


Fyrirrennari:
Nicolau dos Reis Lobato
(1978)
Forseti Austur-Tímor
(20. maí 200220. maí 2007)
Eftirmaður:
José Ramos-Horta
Fyrirrennari:
Estanislau da Silva
Forsætisráðherra Austur-Tímor
(8. ágúst 200716. febrúar 2015)
Eftirmaður:
Rui Maria de Araújo
Fyrirrennari:
Taur Matan Ruak
Forsætisráðherra Austur-Tímor
(1. júlí 2023 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti