Wikipedia:Grein mánaðarins/08, 2010
Sjávarútvegur á Íslandi er atvinnuvegur sem snýst um nýtingu sjávarfangs allt frá rannsóknum á hafinu og þar til afurðin er komin á disk neytenda. Meðal viðfangsefna íslensks sjávarútvegs má því telja haffræðilegar og fiskifræðilegar rannsóknir, veiðar, matvælavinnslu og markaðssetningu sjávarafurða. Sjávarútvegur snýst því um margt fleira en eingöngu að veiða fisk, en segja má að lokamarkmið hans sé að selja fiskafurðir. Sjávarútvegsmálum á Íslandi er stýrt af sjávarútvegsráðherra sem er nú einnig ráðherra landbúnaðar. Sjávarútvegur hefur verið mikilvæg atvinnugrein á Íslandi frá upphafi Íslandsbyggðar, en einhverjar gjöfulustu veiðislóðir í Norður-Atlantshafi eru í íslenskri lögsögu. Sjávarútvegur átti þátt í að breyta Íslandi frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu í byrjun 19. aldar í eina af efnuðustu þjóðum heims um aldamótin 2000.