Wikipedia:Grein mánaðarins/07, 2021
Ungverjaland (ungverska: Magyarország) er landlukt ríki í Mið-Evrópu, rétt austan Alpafjalla. Það er rúmlega 93 þús km2 að stærð og voru vesturlandamærin að Austurríki jafnframt hluti járntjaldsins. Landið var fyrsta austurevrópska ríkið til að ganga í NATO í mars 1999. 1. maí 2004 fékk það inngöngu í Evrópusambandið. Íbúar eru 10 milljónir. Höfuðborgin er Búdapest.
Ungverjaland á landamæri að sjö öðrum ríkjum. Fyrir norðan er Slóvakía, fyrir norðaustan Úkraína, fyrir austan Rúmenía, fyrir sunnan Serbía, Króatía og Slóvenía og fyrir vestan Austurríki. Landið er afar láglent og er lægsti punkur þess í aðeins 78 metra hæð yfir sjó, þrátt fyrir mikla fjarlægð til sjávar. Dóná skiptir landinu í tvo hluta, en fljótið rennur frá norðri til suðurs um miðbik landsins. Nær allur austurhluti landsins er á ungversku sléttunni (pússtunni). Vestan við Dóná er hæðótt landslag og þar er nokkurt fjalllendi. Hæsti tindur landsins, Kékes, nær þó ekki nema 1.014 metra hæð. Vestast er Vínarsléttan sem teygir sig yfir landamærin til Austurríkis. Vestarlega í landinu er Balatonvatn, en það er stærsta stöðuvatn Mið-Evrópu.
Ungverjaland heitir Magyarország á ungversku. Heitið er dregið af einum af sjö ættbálkum úgríta, magyara, sem komu upphaflega frá Mið-Asíu. Magyarar sameinuðu ættbálkana á 10. öld og upp frá þeim tíma var heitið notað yfir landið. Á öðrum tungumálum er heitið hins vegar komið úr slavnesku. Slavar kölluðu íbúana onogur, sem merkir tíu ættir. Úr því myndaðist orðið Ungverjar. Ítalir segja Ungheria, en Danir og Þjóðverjar Ungarn. Á latínu bættist auka –h– við orðið, svo úr varð Hungarus. Þannig heitir landið enn Hungary á ensku og Hongrie á frönsku.