Wikipedia:Grein mánaðarins/02, 2021

Seðlabanki Bandaríkjanna (e. the Federal Reserve System) var stofnaður 23. desember 1913 í viðleitni til að koma á stöðugleika í bandaríska bankakerfinu og gjaldmiðilsmálum. Áður höfðu ítrekaðar tilraunir verið gerðar til að koma á fót seðlabanka til að auka stöðugleika en þær runnu út í sandinn, einkum vegna hræðslu við miðstýringu seðlabankans. Að lokum varð það svo að komið var til móts við báðar fylkingar með stofnun ómiðstýrðs seðlabanka þegar þáverand forseti Woodrow Wilson skrifaði undir Federal Reserve Act.

Stjórn seðlabankans skiptist á milli alríkisnefndar (e. federal government agency), bankastjórnar (e. board of governors) og tólf svæðisbundinna seðlabanka. Hugmyndin að baki stjórnskipulaginu endurspeglaði hræðslu manna við miðstýrðan seðlabanka. Stjórn bankans er með höfuðstöðvar í Washington D.C. og gegnir meðal annars því hlutverki að stýra aðgerðum í peningamálastefnu þjóðarinnar. Stjórnin hefur vökult auga með skilyrðum á fjármálamörkuðum með greiningu á innlenda og alþjóðlega hagkerfinu. Þá leiðir það ýmsar nefndir í rannsóknum á málefnum tengdum fjármálakerfinu t.d. rafrænum viðskiptum. Eftirlit með fjármálaþjónustukerfi, reglugerðum er varða neytendavernd auk eftirlits með greiðslukerfi þjóðarinnar fellur stjórninni einnig í skaut. Stjórnin hefur eftirlit með starfsemi seðlabankanna tólf, hún m.a. sér um að samþykkja sitjandi stjórn bankanna, ákveður bindiskyldu og samþykkir forvexti.

Meðlimir bankastjórnarinnar eru sjö talsins og tilnefndir af forseta til 14 ára setu, en öldungadeild þingsins verður að samþykkja tilnefningarnar til að þær taki gildi. Lengd setutímabils stjórnarmeðlima endurspeglar viljann til að tryggja stöðugleika í stjórn seðlabankans. Formaður og varaformaður bankans eru tilnefndir til fjögurra ára í senn, en hægt er að tilnefna þá aftur að þeim tíma loknum.