Vaud
Höfuðstaður Lausanne
Flatarmál 3212,1 km²
Mannfjöldi
 – Þéttleiki
761.200 (2014)
237/km²
Sameinaðist Sviss 1803
Stytting VD
Tungumál Franska
Vefsíða [1]

Vaud (þýska: Waadt) er frönskumælandi kantóna í Sviss og liggur að frönsku landamærunum í vestri.

Lega og lýsing breyta

Vaud er fjórða stærsta kantónan í Sviss með 3.212,1 km2 (2014). Hún liggur nær suðvestast í landinu, meðfram gjörvallri norðurströnd Genfarvatns. Fyrir norðan er kantónan Neuchatel, fyrir austan er Fribourg, fyrir suðaustan er Wallis og fyrir suðvestan er Genf. Auk þess á Vaud landamæri að Frakklandi að vestan, sem og vatnalandamæri að Frakklandi að sunnan með Genfarvatni. Norðurhluti kantónunnar nemur við Neuchatelvatn (Lac de Neuchatel). Vaud er eina kantónan sem liggur bæði að Alpafjöllum og Júrafjöllum. Hæsta fjallið er Les Diablerets, sem er 3.210 metra hátt. Vaud er frönskumælandi kantóna. Íbúarnir eru 672 þús að tölu, sem gerir Vaud að þriðju fjölmennustu kantónu Sviss. Aðeins Zürich og Bern eru fjölmennari. Höfuðborgin er Lausanne.

Skjaldarmerki breyta

Skjaldarmerki Vaud samanstendur af tveimur láréttum röndum. Fyrir ofan er hvítt, fyrir neðan grænt. Í hvíta litnum eru orðin: LIBERTÉ ET PATRIE, sem merkir frelsi og föðurland. Merki þetta var tekið upp 1798 er lýðveldið Léman var stofnað til skamms tíma. Græni liturinn stendur fyrir frelsi.

Orðsifjar breyta

Upphaflega hét héraðið Waldgau, sem merkir skógarhérað. Þaðan kemur þýska heitið Waadt og franska heitið Vaud.

Söguágrip breyta

 
Genfarvatn og Alparnir eru áberandi í kantónunni Vaud. Myndin er tekin við Montreux.

Áður fyrr bjuggu keltar á svæðinu. Cesar hertók héraðið 58 f.Kr., en nær einu rómversku menjarnar eru í borginni Avenches nyrst í kantónunni. Sú borg var eydd af alemönnum 260 e.Kr. Við fall Rómaveldis settust búrgúndar þar að og var héraðið lengi vel í hertogadæminu Búrgúnd. 1218 varð héraðið eign Savoy. 1536 hertóku herir frá Bern héraðið, sem varð að nokkurs konar svissnesku leppríki. 1564 voru Lausanne-samningarnir undirritaðir, en í þeim sagði Savoy sig lausa frá héraðinu, sem varð endanlega eign Bernar. Nokkrum mánuðum áður en Frakkland hertók Sviss 1798 gerðu íbúar Vaud uppreisn gegn Bern og lýstu yfir sjálfstæði. Þetta var lýðveldið Léman. Frakkar leystu lýðveldið hins vegar upp á sama ári og innlimuðu héraðið helvetíska lýðveldinu. Þeir stofnuðu kantónuna Léman úr héruðunum Vaud og Genf. Við endurskipulagningu lýðveldisins 1803 var Léman splittað í tvær kantónur: Vaud og Genf. 1830 urðu almenn mótmæli íbúa til þess að ný stjórnarskrá var samin, sem tók gildi ári síðar. Nýjasta stjórnarskrá kantónunnar var samþykkt 2003. Í dag er Vaud mikið iðnaðarhérað. Ferðaþjónustan er einnig gríðarlega mikilvæg, enda er strandlengja Genfarvatns ákaflega vinsæl.

Borgir breyta

Stærstu borgir Vaud. Þær eru allar við Genfarvatn, nema Yverdon-les-Bains, sem liggur við suðurenda Neuchatelvatns.

Röð Borg Íbúafjöldi Ath.
1 Lausanne 126 þús Höfuðborg kantónunnar
2 Yverdon-les-Bains 26 þús
3 Montreux 24 þús
4 Renens 19 þús
5 Nyon 18 þús
6 Vevey 18 þús
7 Pully 17 þús
8 Morges 14 þús

Heimildir breyta