Theodore William Schultz (fæddur 30.apríl 1902 - látinn 26.febrúar 1998) var bandarískur landbúnaðarhagfræðingur (e. agricultural economist). Hann vann Nóbelsverðlaun árið 1979 fyrir vinnu sína í landbúnaðarhagfræði.

Theodore William Schultz.

Æviágrip breyta

Schultz ólst upp í litlum sveitabæ í Suður-Dakóta í Bandaríkjunum. Grunnskólaganga Schultz var rofin vegna gríðarlegs skorts á vinnuafli á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar[1]. Hann lærði á ungum aldri að erfitt var fyrir landbúnaðarfjölskyldur að binda saman enda sína og leiddi það hann inn í landbúnaðarhagfræðina og rannsóknir á hagfræði fátæktar[2]. Schultz gekk í landbúnaðarháskólann í Suður-Dakóta árið 1921, lauk námi í B.S. í hagfræði og landbúnaði árið 1927 og lauk doktorsprófi í landbúnaðarhagfræði í Wisconsin háskólanum í Madison árið 1930.

Schultz var prófessor í háskólanum í Iowa á árunum 1930 til 1943. Árið 1943 blossuðu upp deilur vegna þrýstings háskólans á rannsakendur að fela niðurstöður sínar eftir þá uppgötvun að smjörlíki væri ekki jafn óhollt fyrir almenning og almennt var talið á þeim tíma[3]. Schultz og átján aðrir fræðimenn sögðu stöðu sinni upp eftir að háskólinn stöðvaði rannsóknir sem voru óhagstæðar fyrir mjólkuriðnaðinn og var skólinn að bregðast við þrýstingi frá talsmönnum úr mjólkuriðnaðinum sjálfum. Schultz barðist fyrir akademísku frelsi þar sem kennarar hafa rétt á að fræða með sínum hætti án þrýstings eða afskipta utanaðkomandi aðila. Schultz hóf kennslu í Chicago-háskóla þar sem hann var til enda starfsferilsins síns.

Árið 1946 gerðist Schultz formaður hagfræðideildar Chicaco háskóla og var þar til 1961. Árið 1960 varð hann forseti bandarísku hagfræðistofnuninnar, AEA. Schultz giftist Esther Florence Werth árið 1930. Esther hafði einnig bakgrunn í landbúnaði og deildi með honum hugmyndum. Schultz ávarpaði hana í Nóbelsræðu sinni þar sem hann þakkaði henni fyrir samvinnuna[4]. Þau eignuðust tvær dætur og einn son.

Theodore Schultz lést árið 1998, 95 ára að aldri.

Starfsferill breyta

Schultz lagði fram fjölmargar kenningar sem leiddu til framdráttar hagvísinda. Þar má nefna vinnu hans í landbúnaðarhagfræði fátækra, þróunarríkja og hlutdeild hans í mannauðskenningunni. Í rannsóknum sínum ferðaðist Schultz víða til að hitta bændur, þorpsleiðtoga og verkamenn.

Landbúnaðarhagfræði breyta

Schultz byrjaði feril sinn í landbúnaðarhagfræði og lagði hann sérstaka áherslu á þróun landbúnaðarsvæða í þróunarlöndum. Schultz skrifaði fjölmargar bækur tengdar fræðinni. Í ritinu Transforming Traditional Agriculture (1964) rökræddi Schultz fyrir því að landbúnaðarmenn í þróunarlöndum væru í raun ekki óskynsamir og óviljugir til þess að sinna nýsköpun sem var almenna viðhorfið á þeim tíma. Sýndi hann fram á í stað að landbúnaðarmenn voru að bregðast eins skynsamlega og mögulegt var við háum sköttum ríkisins, fyrirfram ákveðnu hámarksverði fyrir uppskeru og litlum stuðning við rannsóknar- og þróunarvinnu. Hann hélt því fram að stöðnunin sem átti sér stað í landbúnaði þróunarlanda væri að mestu leyti vegna stefnu stjórnvalda á þeim tíma. Benti Schultz á það að þær stefnur sem ríkisstjórnir hefðu sett fram hefðu dregið úr hvata og getu bænda til að taka þátt í að fjárfesta í nýsköpun fyrir landbúnað[4].

Mannauðskenningin breyta

Á ferðum sínum um heiminn fyrir rannsóknir hans á landbúnaði kynntist Schultz fjölda fátækra einstaklinga og hafði við það samræður. Þær samræður leiddu Schultz áfram að tengja saman landbúnað, hagvöxt og mannauð. Í framhaldi rannsakaði Schultz mismuninn í styrkleika hagkerfa sem var til staðar á milli þjóða eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Þá hafði hann tekið eftir því að hagkerfi Japans og vestur-Þýskalands hefðu með ótrúlegum hraða náð að draga sig upp úr algjörri eyðileggingu seinni heimsstyrjaldarinnar - sérstaklega ef samanborið við þróun Bretlands. Bretland þjáðist af alvarlegri efnahagskreppu í nokkur ár eftir stríðið. Schultz mat það sem svo að Marshalláætlunin væri í raun að skaða efnahag landanna í Evrópu. Þar sem aðstoðin var ókeypis leiddi það til þess að hagkerfin í löndunum sem framleiddu samanburðarhæfar vörur neyddust til þess að lækka verð sem gerði landbúnaðinn ófæran til þess að stunda virka verðsamkeppni. Schultz komst að þeirri niðurstöðu að grunnurinn af velgengni Þýskalands og Japans væri fjöldi heilbrigðra einstaklinga í samfélaginu og menntun þeirra sem varð að lokum grundvöllur mannauðskenningarinnar hans. Þetta varð til þess að hann lagði mikla áherslu á gæði íbúa sem grunnþáttur að hagvexti og þróun fram yfir gæði eða magns lands eða annarra náttúruauðlinda. Hugmyndafræðin leiddi til mikilla breytinga á fjármögnun mennta- og heilsueflingaráætlana alþjóðlegra stofnana eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Inernational Monetary Fund) og Alþjóðabankans (e. World Bank).

Nóbelsverðlaunin breyta

Theodore Schultz hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði með Sir William Arthur Lewis árið 1979 fyrir vinnu þeirra í þróunarhagfræði með áherslu á landbúnaðarhagfræði. Fyrri verk Schultz, frá greiningu hans á bandarískum landbúnaði, voru birt á árunum 1932 til 1951. Sú vinna var undirstaðan af seinni vinnu hans sem hann hlaut Nóbelsverðlaunin fyrir. Schultz er eini landbúnaðarhagfræðingurinn sem hefur fengið Nóbelsverðlaunin í hagfræði.

Tilvísanir breyta

  1. „What are the economics of being poor?“. Nobel Perspectives (enska). Sótt 29. október 2021.
  2. „Theodore William Schultz | American economist“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 29. október 2021.
  3. „The Butter Wars: When Margarine Was Pink“. Culture (enska). 13. ágúst 2014. Sótt 29. október 2021.
  4. 4,0 4,1 „The Sveriges Riksbank Prize in Economic Sciences in Memory of Alfred Nobel 1979“. NobelPrize.org (bandarísk enska). Sótt 29. október 2021.