Sundlaug Akureyrar er íslensk sundlaug við Skólastíg, 600 Akureyri.

Sundlaug Akureyrar

Sundlaugin býður upp á tvær 25 metra útisundlaugar, fimm heita potta, vaðlaug, innilaug, eimbað og kaldan pott. Þar eru líka þrjár rennibrautir sem voru vígðar árið 2017[1], Fossinn, Trektin og Flækjan, sem er lengsta vatnsrennibraut á Íslandi.

Saga breyta

Fyrsta sundlaugin sem byggð var á Akureyri og sennilega á þeim stað sem Sundlaug Akureyrar er nú, var gerð árið 1897, með torffyrirhleðslu í læk sem rann um Grófargil. Veggir á núverandi sundlaugaþró voru byggðir árið 1922 og botn steyptur í hana árið 1936. Laugin er 11 x 25 m og var heitt vatn leitt í hana úr Glerárgili árið 1933. Síðar meir var rafmagn einnig notað til upphitunar, en síðan 1978 hefur heitt vatn verið að mestu fengið frá Hitaveitu Akureyrar. Sundlaugin er dýpst 3 m en grynnst 1 m. Árið 1956 var nýtt hús tekið í notkun við laugina og í kjallara þess er 8 x 12,5 m kennslulaug. Er hún dýpst 1,75 m og grynnst 0,90 m. Þá eru í húsinu búningsklefar og böð, eimbað, miðasala og aðstaða fyrir starfsfólk. Við laugina eru tveir hefðbundnir heitir pottar, 40°C og 43°C heitir, einn stærri pottur kallaður Grettisker um 38°C heitur, ein setlaug með "foss"-nuddstútum um 37°C heit, nuddpottur um 38°C og vaðlaug fyrir börn um 37°C heit . Skólar á suðurbrekkunni nota laugarnar fyrir skólasund. Á sundlaugarlóðinni var lengi tennisvöllur yfir sumarmánuðina sem lagður var niður 1994 í sambandi við nýframkvæmdir sem þá hófust á sundlaugarlóðinni. Þar var sett upp akstursbraut fyrir kassabíla ásamt fleiri leiktækjum, en þar standa nú tveir ærslabelgir sem voru settir upp árið 2017 ásamt nýjum leiktækjum. Sumarið 1994 var farið í miklar framkvæmdir við Sundlaug Akureyrar og laugin og mannvirkin endurhönnuð. Árið 1994 var fyrsta vatnsrennibraut sundlaugarinnar vígð, 55 m löng og önnur minni 11 m og lendingarlaug í sambandi við þær, en þessar tvær rennibrautir voru fjarlægðar þegar nýju rennibrautirnar voru settar upp árið 2017. Í framkvæmdunum 1994 voru einnig sett upp eimbaðið, vaðlaugin og útisturtur. Nýrri útilaugin sem er 25 x 15 m var tekin í notkun sumarið 1998 og sumarið 1999 var vígður sá hluti byggingarinnar sem hýsir búningsklefa kvenna, anddyri með afgreiðslu og glerhúsi með heitum innipotti og Grettiskerið. Þá var eldri hluti sundlaugarbyggingarinnar endurbættur árið 2000. Sundlaug Akureyrar er í eigu Akureyrarbæjar.

Tilvísanir breyta

  1. „Opna nýju vatnsrennibrautirnar á Akureyri“. www.mbl.is. Sótt 30. október 2020.