Staðarsveit (Skagafirði)

Staðarsveit er byggðarlag í vestanverðum Skagafirði, en nafnið er raunar ekki mikið notað nú á tímum. Að sunnan eru mörkin við enda Langholts og Sæmundarhlíðar og síðan liggur sveitin undir Staðaröxl og út að landamerkjum Birkihlíðar og Gils, en þar tekur Borgarsveit við. Bæirnir standa flestir neðst í fjallsrótunum en þar fyrir austan eru miklar flatlendisbreiður, víða mjög votlendar, og um þær rennur Staðará (Sæmundará) út í Miklavatn. Sveitin er kennd við Reynistað, sem áður hét Staður í Reynisnesi, en af öðrum bæjum má nefna höfuðbólið Vík.