Skakki turninn í Písa

klukkuturn í Písa á Ítalíu
(Endurbeint frá Skakki turninn)

Skakki turninn í Písa (ítalska: Torre pendente di Pisa eða einfaldlega Torre di Pisa) er frístandandi klukkuturn í borginni Písa á Ítalíu og tilheyrir hann dómkirkjunni í Písa.

Skakki turninn í Písa

Turninum var ætlað að standa lóðrétt, en stuttu eftir byggingu hans í ágúst 1173 tóku undirstöður hans að síga og hann því að hallast. Hann er staðsettur á bak við kapelluna og er eitt af þremur mannvirkjum á Campo dei Miracoli í Písa (svæði kraftaverkanna).

Turninn er 55,86 metrar að hæð á lægstu hlið og 56,70 á þeirri hæstu. Hann hallar um 4 gráður. Breidd veggjanna við jörðu er 4,09 metrar og 2,48 efst í turninum. Áætlað er að þyngd hans sé 14.500 tonn og það eru 294 þrep í honum. Turninn hefur, ásamt dómkirkjunni, skrúðhúsinu og kirkjugarðinum verið á heimsminjaskrá frá árinu 1987.