Sigurður Hákonarson

Sigurður Hákonarson (norska: Sigurd Håkonsson) (um 895962) var Hlaðajarl, þ.e. jarl yfir Þrændalögum og Hálogalandi, og því einn valdamesti maður Noregs á sinni tíð. Hann var sonur Hákonar Grjótgarðssonar.

Eftir því sem segir í Heimskringlu fór Þóra Morstrarstöng, frilla Haraldar hárfagra, með Sigurði á skipi og ætlaði til Haraldar, en hún var þá þunguð. Hún ól son á leiðinni og gaf Sigurður honum nafnið Hákon eftir föður sinum. Drengurinn var síðar sendur í fóstur til Aðalsteins Englandskonungs en sneri aftur þegar hann var um tvítugt, var tekinn til konungs og kallaður Hákon Aðalsteinsfóstri. Sigurður var einn helsti ráðgjafi hans og fylgdi honum vel að málum en setti sig þó á móti tilraunum Hákonar til að kristna Norðmenn, enda fór svo að Hákon varð að kasta trúnni til að halda völdum.

Hákon Aðalsteinsfóstri féll fyrir Gunnhildarsonum frændum sínum 960 eða 961. Sigurður var svo brenndur inni á Ögló í Stjóradal haustið 962, þegar Haraldur gráfeldur Noregskonungur, sonur Eiríks blóðöxar, reyndi að sameina Noreg á ný.

Kona Sigurðar var Bergljót, dóttir Þóris þegjandi jarls af Mæri og konu hans Álofar árbótar, sem sögð er hafa verið dóttir Haraldar hárfagra. Sonur þeirra var Hákon, sem tók við jarldæminu eftir föður sinn.

Kormákur Ögmundarson var hirðskáld Sigurðar jarls, og eru brot úr Sigurðardrápu eftir hann varðveitt í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu og Heimskringlu.


Fyrirrennari:
Hákon Grjótgarðsson
Hlaðajarlar
(um ?962)
Eftirmaður:
Hákon Sigurðarson