Sigrún Pálína Ingvarsdóttir

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir (fædd 8. nóvember 1955, látin 2. apríl 2019) var íslenskur þroskaþjálfi og brautryðjandi í baráttunni gegn kynferðislegu ofbeldi á Íslandi. Sigrún Pálína lauk námi frá Þroskaþjálfa­skóla Íslands árið 1977 og starfaði við fagið hér á landi til ársins 1996 er hún flutti bú­ferl­um til Dan­merk­ur þar sem hún starfaði lengst af sem þroska- og markþjálfi og meðferðarráðgjafi.

Sigrún Pálína var ein þeirra kvenna sem stigu fram árið 1996 og greindu opinberlega frá því að sr. Ólafur Skúlason biskup Íslands hefði framið kynferðisbrot gegn þeim á þeim tíma er hann starfaði sem sóknarprestur í Bústaðakirkju. Sigrún Pálína hafði allt frá árinu 1988 reynt að ræða málið innan Þjóðkirkjunnar en ekki haft erindi sem erfiði. Hún sendi erindi til siðanefndar Prestafélags Íslands árið 1996 og í kjölfarið komst málið í opinbera umræðu. Biskup mótmælti málflutningi kvennanna og hlaut málið, sem gekk undir nafninu Biskupsmálið, mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Konurnar mættu víðast hvar fálæti og biskup leitaði m.a. til embættis ríkissaksóknara með það fyrir augum að kæra konurnar fyrir rangar sakargiftir. Eftir skýrslutökur hjá embættinu beindi ríkissaksóknari því til biskups að láta málið niður falla sem hann og gerði. Málið tók nýja stefnu eftir andlát Ólafs árið 2008 er dóttir hans, Guðrún Ebba Ólafsdóttir gekk á fund Karls Sigurbjörnssonar þáverandi biskups og óskaði eftir því að málið yrði tekið fyrir með formlegum hætti innan kirkjunnar og að Sigrún Pálína fengi áheyrn biskups og Kirkjuráðs, auk opinberrar afsökunarbeiði frá Þjóðkirkjunni. Yfirstjórn kirkjunnar aðhafðist ekkert frekar í málinu þrátt fyrir ítrekaðar óskir Guðrúnar Ebbu þar að lútandi. Það var svo árið 2010 að loks var skipuð rannsóknarnefnd sem leiddi í ljós hvernig kirkjan brást þessum konum og voru þeim dæmdar bætur.

Sigrún Pálína hlaut Jafnréttisviðurkenningu Stígamóta árið 2010.

Heimildir breyta

Ítarefni breyta