Seglskúta

(Endurbeint frá Seglbátur)

Seglskúta, seglskip, seglbátur eða kjölbátur er skip sem notast við segl til að láta vindinn knýja sig áfram. Seglskútur áttu sitt blómaskeið á skútuöld, þegar þær urðu gríðarlega stórar og voru ráðandi tækni í alþjóðaviðskiptum og sjóhernaði. Stærstu skipin urðu til á 18. og 19. öld en um miðja 19. öld tóku gufuskip og síðar vélbátar við.

Danskur kútter með skipsskrokk úr viði

Saga siglinga

breyta

Segl voru notuð til að knýja áfram stærri og minni skip frá alda öðli og voru notuð samhliða árum og stjökum. Með því að notast við segl var hægt að smíða miklu stærri skip en hægt var að knýja áfram með árum eingöngu. Seglskip voru notuð fyrir farþegaflutninga, vöruflutninga, póstflutninga og sem herskip. Gríðarlegar sjóorrustur voru háðar á seglskipum á skútuöld og sjóræningjar herjuðu á kaupskip og fiskiskip á fjölförnum skipaleiðum.

Að sigla seglskipi útheimtir þekkingu á seglbúnaðinum og jafnvel litlar skútur þurfa áhöfn þar sem menn taka að sér ákveðin verk um borð. Þegar siglt er allan sólarhringinn er áhafnarmeðlimum skipað niður á vaktir og skipsbjalla notuð til að gefa merki um vaktaskipti. Þjálfun sjómanna var gríðarlega mikilvæg á skútuöld, ekki síst vegna þess að sjómenn á fiskiskipum og kaupskipum voru stundum kallaðir til að þjóna á herskipum í stríði.

Nú til dags eru seglskip aðallega notuð sem skemmtibátar þótt stærri seglskip séu enn notuð til vöruflutninga á Indlandshafi og seglbátar séu enn notaðir til fiskveiða um allan heim. Hásigld skip eru fyrst og fremst notuð sem skólaskip til þjálfunar og sem sýningargripir, en fæstar skútur í dag eru með toppsegl.

Siglingatækni

breyta
 
Norska fullreiðaskipið Christian Radich undir seglum.

Vindstigakvarðinn var saminn á 19. öld og miðaðist við þarfir seglskipa, einkum stærri skipa sem sigldu um úthöfin. Fyrir slík skip gat verið jafnhættulegt að lenda í logni og reka stjórnlaust með hafstraumum, eins og að lenda í stormi og hætta á að eyðileggja seglbúnaðinn.

Aðalvandinn við að sigla stórum seglskútum á áætlunarleiðum er síbreytileiki vindsins. Þannig getur skipi verið ógerlegt að komast tiltekna leið vegna þess að ekki er hægt að beita seglum þannig. Í fornöld og á miðöldum var jafnvel stórum seglskipum róið með árum ef þurfti. Stærri árabátar voru auk þess með seglbúnað til að létta erfiðið um borð þannig að skilin milli seglbáta og árabáta geta verið breytileg; munurinn liggur í því hvor aðferðin (róa eða sigla) er mest notuð, þannig að t.d. langskip er seglskip, en galeiða er áraskip þótt báðar tegundirnar séu búnar bæði árum og seglum.

Um leið og gufuvélin kom fram á sjónarsviðið og síðar díselvélar með skrúfu var farið að nýta vélarafl í bland við seglin. Jafnvel með lítilli vél er hægt að sigla skipinu á móti vindi auk þess sem það er auðveldara að beita skipinu á þröngum leiðum, við landsteina eða í höfnum. Fyrir tilkomu hjálparvéla voru dráttarbátar stundum notaðir til að draga stærri seglskip út á sjó úr höfn og fram hjá skerjum. Nú til dags eru flest seglskip búin hjálparvél, ýmist díselvél innanborðs eða með utanborðsmótor.

Gerðir seglskipa

breyta

Margar ólíkar tegundir af seglskútum eru til, en þær eiga þó allar ýmislegt sameiginlegt. Allar hafa þær skrokk og seglbúnað (siglutré, segl og stög). Kjölur og kjölfesta mynda svo mótvægi við hliðarátakið þegar vindurinn blæs í seglin og koma í veg fyrir að bátnum hvolfi. Hverrar tegundar skútan er ræðst af því hvernig þessum hlutum er komið fyrir í hönnun skipsins.

Heimildir og ítarefni

breyta
  • Ársæll Jónasson og Henrik Thorlacius, Verkleg sjóvinna: handbók sjómanna og útvegsmanna, Reykjavík: Ársæll Jónasson, 1952.
  • Dana, Richard Henry, Hetjur hafsins: rödd úr hásetaklefanum, þýð. Sigurður Björgólfsson, Seyðisfjörður: Prentsmiðja Austurlands, 1949.
  • Gils Guðmundsson, Skútuöldin 1-5, Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, 1944-1946.
  • Lúðvík Kristjánsson, Íslenzkir sjávarhættir II, Reykjavík: Menningarsjóður, 1982.
  • Ritchie, David, Sigldu betur, þýð. Ragnhildur Nielsen, Niels Chr. Nielsen og Birgir Ari Hilmarsson, Reykjavík: Siglingasamband Íslands, 2007.
  • Sleight, Steve, Byrjaðu að sigla, þýð. Matthías Kristiansen, Níels Chr. Nielsen og Birgir Ari Hilmarsson, Reykjavík: Siglingasamband Íslands, 2006.
  • Svensson, Sam, Baker, William og Scheen, Rolf , Skipabókin, þýð. Bárður Jakobsson og Ólafur V. Sigurðsson, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1974.