Scottish Society for Northern Studies

Scottish Society for Northern Studies er fræðafélag sem stofnað var árið 1968 sem skosk hliðstæða Víkingafélagsins í London. Félagið helgar sig einkum rannsóknum og kynningu á menningu norðurhluta Skotlands og nálægra eyja á miðöldum, þegar norræn menningaráhrif voru þar mikil frá ríki Orkneyjajarla. Félagið er einnig samfélag fræðimanna og áhugamanna um efnið.

Magnúsarkirkjan í Kirkjuvogi, Orkneyjum.

Söguágrip breyta

Á fimmta Víkingaþinginu í Þórshöfn árið 1965, kom fram sú hugmynd að stofna skoska deild eða hliðstæðu við Víkingafélagið í London, og varð það að veruleika 1968, þegar félagið var stofnað. Félaginu var ætlað „að rannsaka gagnkvæm tengsl hinna norrænu, keltnesku og skosku menningarsvæða, og verða vettvangur á Skotlandi fyrir sérfræðinga og áhugamenn á mörgum fræðasviðum til að ástunda sín sameiginlegu ‚norrænu‘ áhugamál.“

Hermann Pálsson prófessor í Edinborg var einn af stofnendum félagsins. Hann sat í stjórnarnefnd þess 1968–1982, og var forseti 1970–1971. Hann skrifaði talsvert í rit félagsins, m.a. 9 greinar í tímaritið Northern Studies.

Félagið heldur málstofu eða ráðstefnu einu sinni á ári og gefur út ráðstefnurit í tengslum við það.

Útgáfustarfsemi breyta

Á vefsíðu félagsins er listi yfir helstu rit sem félagið hefur gefið út.

Félagið gefur út tímaritið Northern Studies. Það kom fyrst út 1973 og var fyrstu árin lítið fjölritað hefti, en frá og með 21. hefti, 1984, hefur verið lagt meira í það og fékk það þá undirtitilinn The Journal of Scottish Society for Northern Studies. Það kemur nú út árlega. Á vefsíðu félagsins er leitarvél til að finna greinar í tímaritinu. Eftirmæli um Hermann Pálsson, eftir Arne Kruse, eru í 37. hefti, 2003.

Heimildir breyta

  • Vefsíða félagsins og rit þess.

Tenglar breyta