Vallabhbhai Patel

Indverskur stjórnmálamaður
(Endurbeint frá Sardar Vallabhbhai Patel)

Vallabhbhai Jhaverbhai Patel (31. október 1875 – 15. desember 1950), oft kallaður Sardar Patel, var fyrsti varaforsætisráðherra Indlands. Hann var málafærslumaður og hátt settur stjórnmálamaður í indverska Þjóðarráðsflokknum. Patel lék lykilhlutverk í sjálfstæðisbaráttu Indverja, stofnun indverska lýðveldisins og sameiningu Indlands í samhæfða og sjálfstæða þjóð.[1] Á Indlandi er hann oft einfaldlega kallaður Sardar, sem þýðir „höfðingi“ á hindí, úrdú og persknesku. Patel var einnig í reynd yfirforingi Indlandshers á meðan skipulagi var komið á í hinu nýsjálfstæða Indlandi og í stríði Indlands og Pakistan árið 1947.

Vallabhbhai Patel
Varaforsætisráðherra Indlands
Í embætti
15. ágúst 1947 – 15. desember 1950
ForsætisráðherraJawaharlal Nehru
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurMorarji Desai
Innanríkisráðherra Indlands
Í embætti
15. ágúst 1947 – 15. desember 1950
ForsætisráðherraJawaharlal Nehru
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurC. Rajagopalachari
Persónulegar upplýsingar
Fæddur31. október 1875
Nadiad, Gújarat, breska Indlandi
Látinn15. desember 1950 (75 ára) Mumbai, Indlandi
StjórnmálaflokkurIndverski þjóðarráðsflokkurinn
MakiJhaverba Patel
BörnManiben Patel
Dahyabhai Patel

Patel var fæddur og uppalinn í landsbyggð Gújarat.[2] Hann átti fyrir sér farsælan feril sem lögfræðingur. Patel leiddi mótmæli í anda borgaralegrar óhlýðni meðal íbúa Kheda, Borsad og Bardoli gegn yfirráðum Breta á Indlandi. Hann komst til metorða innan indverska Þjóðarráðsflokksins og skipulagði kosningaherferðir flokksins árin 1934 og 1937.

Eftir sjálfstæði Indlands varð Patel fyrsti innanríkisráðherra og varaforsætisráðherra og skipulagði hjálparaðgerðir fyrir flóttamenn sem höfðu yfirgefið heimili sín vegna skiptingar Indlands og Pakistan. Patel sá um að sameina ýmis héröð sem Bretar höfðu skilið eftir í umsjá Indlands og gera úr þeim samheldna þjóð. Auk héraða þar sem Bretar höfðu haft bein yfirráð voru eftir um 565 furstadæmi með heimastjórn sem Bretar höfðu ljáð Indverjum með sjálfstæðissáttmála þeirra árið 1947. Patel hótaði því að beita hervaldi og tókst þannig að sannfæra langflest furstadæmin að ganga til liðs við indverska lýðveldið. Vegna óbilgirni sinnar í sameiningu Indlands fékk Patel viðurnefnið „járnmaður Indlands“.[3] Hann er einnig kallaður „verndardýrlingur indverskrar stjórnsýslu“ þar sem hann stofnaði flestar ríkisþjónustustofnanir Indlands. Hann hefur einnig verið kallaður „sameinari Indlands“.[4]

Árið 2014 lýsti indverska ríkisstjórnin yfir stofnun árlegs hátíðardags á afmælisdegi Patel, þjóðareiningardeginum. Í október árið 2018 var vígð 182 metra há stytta af Patel í heimafylki hans, Gújarat. Styttan er hæsta stytta í heimi.[5]

Tilvísanir

breyta
  1. „How Vallabhbhai Patel, V P Menon and Mountbatten unified India“.
  2. Lalchand, Kewalram (1977). The Indomitable Sardar. Bharatiya Vidya Bhavan. bls. 4. „Sardar Vallabhbhai Patel“
  3. „PM Modi pays rich tribute to 'iron man' Sardar Patel on his 141st birth anniversary“, The Indian Express, 31. október 2016
  4. „Prime Minister Narendra Modi pays tribute to India's 'Iron Man' on his 141st birth anniversary“, The Financial Express, 31. október 2016
  5. „Vígðu hæstu styttu í heimi“. RÚV. 31. október 2018. Sótt 3. nóvember 2018.