Sýklalyfjaónæmi er það að baktería verður ónæm fyrir áhrifum sýklalyfs sem áður verkaði gegn henni. Þá verður mun erfiðara að meðhöndla sýkinguna og oft þarf þá að grípa til dýrari lyfja eða lyfja sem hafa eiturverkanir. Þær bakteríur sem eru komnar með vörn fyrir mörgum gerðum af sýklalyfjum kallast fjölónæmar bakteríur.

Tvær ræktarskálar með sömu sjö tegundum af sýklalyfjum. Glæru hringirnir í kringum hvítu punktana í vinstri skálinni sýna hvernig sýklalyfin fyrirbyggja vöxt bakteríanna. Í hægri skálinni eru sýklar sem eru ónæmir fyrir fjórum af sjö tegundum af sýklalyfjum.

Sýklalyfjaónæmi getur komið fram vegna nokkurra þátta: Náttúrulegra varna bakteríunnar, vegna nýrrar stökkbreytingar, eða vegna þess að bakterían tekur upp ný gen frá annarri bakteríu. Ef baktería er lengi útsett fyrir sýklalyfi ná þær bakteríur sem hafa varnir frekar að lifa af, þetta kallast náttúruval. Til að koma í veg fyrir sýklalyfjaónæmi er því reynt að koma í veg fyrir ranga eða of mikla notkun sýklalyfja í heilbrigðisþjónustu og í landbúnaði, og með því að stöðva afrennsli af lyfjaframleiðslu út í náttúruna.[1] Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur sýklalyfjaónæmi vera helstu heilbrigðisógnina á heimsvísu.[2] Talið er að í Evrópu komi 400.000 sýkingar upp á ári vegna sýklalyfjaónæmis.[2]

Misstrangt regluverk er um notkun sýklalyfja eftir löndum. Innan t.d. Evrópusambandsins er notkun sýklalyfja í landbúnaði takmörkuð. Mælt er gegn því að nota svokallaðar „gamlar“ sýklalyfjategundir nema nauðsyn krefji.[3] Hins vegar í Bandaríkjunum og þróunarlöndum tíðkast notkun mikilvægra sýklalyfja í landbúnaði. Þrátt fyrir regluverk sem bannar notkun sýklalyfja í landbúnaði í Bandaríkjunum án lyfjaseðils frá dýralækni hefur ekki dregið úr notkun þeirra.[4]

Á Íslandi er notað hlutfallslega mest af sýklalyfjum af öllum Norðurlöndum, en heildarnotkunin er samt minni en meðaltalsnotkunin í Evrópu. Árið 2017 jókst heildarnotkun sýklalyfja í mönnum á Íslandi um 3,2% miðað við undanfarandi ár. Algengi salmónellu- og kampýlóbaktersýkinga er tiltölulega lágt á Íslandi miðað við önnur lönd en þar er sýklalyfjaónæmi hjá þessum sýklum er meira. Þessi sýklar finnast sjaldan í kjúklingum og svínum á Íslandi eða í færri en 10% af dýrum. Sóttvarnalæknir varar þó við að íslenskur landbúnaður geti samt verið uppspretta sýklalyfjaónæmra baktería.[5]

Sjá einnig breyta

Heimildir breyta

  1. „Hvað er sýklalyfjaónæmi?“. Sótt 15. febrúar 2019.
  2. 2,0 2,1 „Sýklalyfjaónæmi og sýklalyfjanotkun“. Embætti landlæknis. Sótt 15. febrúar 2019.
  3. „Antimicrobial resistance in veterinary medicine“. Sótt 15. febrúar 2019.
  4. Crucial antibiotics still used on US farms despite public health fears“, The Guardian, 19. september 2018.
  5. „Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi 2017“ (PDF). Sótt 15. febrúar 2019.

Tengill breyta

   Þessi heilsugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.