Súrdeig er deig með geri sem er bætt við nýtt brauðdeig svo að það lyftist. Súrdeig er búið til úr blöndu heits vatns og hveitis, sem inniheldur mjólkursýrugerla og gergró, sem gerja sykur þangað til hann breytist í alkóhól og kolsýru. Mjólkursýran gefur brauðinu súrt bragð. Oft er súrdeig notað í rúgbrauð því rúgurinn inniheldur ekki nóg glúten til að halda loftbólum framleiddum af venjulegu geri inni í brauðinu.

Súrdeigsbrauð í körfu

Til að gera súrdeigsbrauð þarf að búa til svokallaða „súrdeigsmóður“. Hlutverk móðurinnar er tvennt: að gefa brauðinu nóg af loftbólum og að láta bragð brauðsins þróast. Móðurin er búin til úr hveiti og vatni. Um leið og vatnið snertir hveitið byrja ensím í hveitinu að brjóta niður sterkju í maltósa. Þá brýtur ensímið maltasi maltósann niður í glúkósa, sem ger geta meltað. Hveitið inniheldur fjölda náttúrulegra gera og gerlagróa. Með tíma, réttu hitastigi og áfyllingum breytist blandan í samlífisræktun. Svo getur móðurin verið notuð til að lyfta brauði ef glútenið hefur þróast vel.

  Þessi matar eða drykkjargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.