Síðari iðnbyltingin

Síðari iðnbyltingin eða tæknibyltingin er tímaskeið í Iðnbyltingunni sem nær frá seinni hluta 19. aldar til fyrri heimstyrjaldarinnar. Þetta tímabil er talið hefjast með tækninýjungum í stálframleiðslu, uppgötvun Bessemers, sem gerðu það mögulegt að framleiða stál á mun ódýrari hátt en áður sem svo hafði mikil áhrif á fjöldaframleiðslu og færibandavinnu.

Eiffelturninn var, líkt og stoðgrind Frelsisstyttunnar, gerður úr puddel-stáli en Bessemer-aðferðin ruddi þeirri tækni úr vegi undir lok 19. aldar. Turninn var reistur fyrir Heimssýninguna í París 1889 sem „minnismerki um þá tíma iðnaðar og vísinda sem við nú lifum“.

Á tímabilinu frá 1870 til 1914 urðu tækniframfarir byggðar á vísindalegri þekkingu, meðal annars í efnafræði. Stóriðja varð útbreidd í sumum tilvikum vegna þess að það var hagkvæmt að hafa stórar einingar, til dæmis geyma og katla. Á þessu tímabili eru lögð veitukerfi eins og rafkerfi, gaskerfi, holræsakerfi og símakerfi, útvarps- og fjarskiptakerfi, og voru þessi kerfi oft svo stór að það var ekki á færi frjáls markaðar að sjá um uppbyggingu þeirra heldur varð það hlutverk sveitarfélaga. Þetta tímabil einkenndist af útþenslu bæjarfélaga.

Tákn þessa tímabils er raforkan en fyrir rafvæðingu voru verksmiðjur iðnríkja knúnar vatns- og gufuorku og það hafði áhrif á staðsetningu iðjuvera. Í gamla kerfinu voru orkugjafar miðlægir og orkunni var dreift frá miðstöð til vélbúnaðar á dreif um verksmiðjurnar. Í verksmiðju með rafkerfi gat hver vél haft sinn eigin rafmótor og það gaf kost á ýmis konar endurskipulagningu og hagræðingu.