Royale Union Saint-Gilloise
Royale Union Saint-Gilloise, yfirleitt skammstafað sem Union SG, USG eða einfaldlega kallað Union er belgískt knattspyrnulið sem stofnað var í Saint-Gilles-hverfinu í Brussel en flutti sig á þriðja áratug tuttugustu aldar yfir í Vorst-hverfið í sömu borg. Union var eitt allra sigursælasta félagið í árdaga belgískrar knattspyrnu og varð ellefu sinnum meistari frá 1904 til 1935. Eftir seinni heimsstyrjöldina tók við langvinn eyðimerkurganga. Árið 2021 lék liðið í efstu deild í fyrsta sinn í 48 ár og varð bikarmeistari vorið 2024.
Saga
breytaRoyale Union Saint-Gilloise var stofnað árið 1897, tveimur árum eftir að keppnin um belgíska meistaratitilinn hófst. Leiktíðina 1901-02 tók félagið fyrst þátt í keppninni um Belgíumeistaratitilinn. Tveimur árum síðar varð það meistari í fyrsta sinn og varði titilinn fimm næstu ár. Á þessum árum tók félagið einnig þátt í millilandakeppnum með ágætum árangri. Union bætti tveimur titlum í sarpinn árin 1913 og 1923. Önnur gullöld félagsins stóð frá 1933 til 1935 þegar liðið var ósigrað í 60 deildarleikjum í röð, sem er ekki met í Belgíu. Þetta skilaði Union Belgíumeistaratitlum númer níu, tíu og ellefu. Það eru enn í dag einu meistaratitlar félagsins, sem einnig hefur orðið bikarmeistari í tvígang, 1913 og 1914.
Þegar borgakeppni Evrópu var haldin í annað sinn á árunum 1958-60 fór Royale Union alla leið í undanúrslit eftir að hafa m.a. slegið AS Roma úr keppni. Eftir það fór vegur Royale Union heldur hnignandi og eftir að hafa rokkað milli efstu og næstefstu deildar féll liðið úr efstu deild árið 1973. Við tóku margir áratugir í neðri deildunum þar sem hið sögufræga félag virtist aðeins ætla að vera neðanmálsgrein í sögu belgískrar knattpyrnu.
Vorið 2018 var tilkynnt að Tony Bloom, stjórnarformaður enska knattspyrnuliðsins Brighton & Hove Albion væri nýr aðaleigandi Royale Union. Með nýju eignarhaldi kom mikil peningainnspýting í félagið sem styrktist hratt. Vorið 2021 komst Royale Union upp í efstu deilt eftir nærri fimm áratuga bið og þegar á sínu fyrsta tímabili þar gerði félagið atlögu að belgíska meistaratitlinum, en varð að lokum að sætta sig við 2. sætið.
Titlar
breyta- Belgíumeistarar
- Sigrar (11): 1903–04, 1904–05, 1905–06, 1906–07, 1908–09, 1909–10, 1912–13, 1922–23, 1932–33, 1933–34, 1934–35
- Númer tvö (8): 1902–03, 1907–08, 1911–12, 1913–14, 1919–20, 1920–21, 1921–22, 1923–24
- Bikarmeistarar
- Sigrar (3): 1912–13, 1913–14, 2023-24