Rotþró er tankur eða röð tanka sem hægja á flæði skólps og minnka magn fastra efna í skólpinu þar sem gegnumstreymi er ekki beint í gegnum tankinn. Óuppleyst efni skiljast frá vatninu á þann hátt að þyngri efnin setjast á botninn en fita og önnur léttari efni fljóta upp. Þannig myndast flotlag og botnlag.

Rotþró

Hlutverk rotþróar er að fella út föst efni, fleyta upp fitu, að stuðla að loftfirrtu niðurbroti á lífrænum efnum og að geyma botnfall (seyru). Skólpvatn rennur út úr þrónni og út í siturlögnina.

Lífræn efni, verða eftir í rotþrónni og byrja að rotna vegna örvera sem eru til staðar og brjóta efnin niður við loftfirrðar aðstæður á botni rotþróarinnar. Um fullkomna eyðingu er þó aldrei að ræða og með tímanum safnast fyrir í þrónni föst efni, svokölluð seyra, sem rotnar ekki. Í köldu loftslagi, eins og er á Íslandi, er hætt við að þessi lífrænu efni rotni hægar og uppsöfnun á seyru verði meiri. Ýmis þvotta- og hreinsiefni, einkum sótthreinsiefni, sem berast í rotþrær með frárennsli, geta dregið úr gerjun og rotnun, sérstaklega ef um óæskilegt magn af efnum er að ræða.

Neðst í rotþróm er botnlag eða seyra sem inniheldur þau efni sem falla til botns og þar fer mesta rotnunin fram. Efsta lagið er fljótandi yfirborðsskán eða froða sem í eru ýmis léttari efni, til dæmis fita og einnig smáagnir. Í flestum tilvikum harðnar yfirborðsskánin og því er nauðsynlegt að skólpinntakið sé fyrir neðan skánina. Á milli yfirborðsskánarinnar og botnlags er skólpvatnið sem berst milli hólfa í rotþrónni og síðan út úr þrónni og í siturlögnina.

Þriggja hólfa rotþrær gera mun meira gagn en þrær sem eru með færri hólfum. Þriggja hólfa rotþrær eru því nauðsynlegar á Íslandi en fleiri en þrjú hólf eru óþörf.

Í þriggja hólfa rotþróm lengist tíminn sem skólpið er í rotþrónni og við það fæst betri botnfelling á föstum efnum. Einnig veldur innstreymi í þróna minna umróti og truflun í seinni hólfunum þar sem fínni og léttari agnir skiljast frá. Þyngstu agnirnar falla til botns í fyrsta hólfi, það er meðal annars ástæðan fyrir því að fyrsta hólf er haft helmingi stærra að rúmmáli en hin tvö hólfin.[1]

TengillBreyta

HeimildirBreyta