Garðabrúða (ævintýri)

(Endurbeint frá Rapunzel)

Garðabrúða er þekkt ævintýri sem kemur fyrir í ýmsum evrópskum sagnasöfnum frá nýöld. Ævintýrið segir frá konu sem stelur garðabrúðu (eða annarri matjurt) úr garði nágrannakonu sinnar, sem er ýmist norn eða tröll. Þegar upp kemst um þjófnaðinn heimtar nornin að fá barnið sem konan ber undir belti. Þegar barnið fæðist tekur nornin hana að sér og elur hana upp. Þegar stúlkan kemst á táningsaldur læsir nornin hana inni í turni án dyra. Einn daginn kemur prins að turninum og kallast á við hana og þau verða ástfangin. Hún notar sítt hár sitt til að prinsinn geti klifrað upp í turninn til hennar þar sem þau elskast. Þegar nornin kemst að því að hún er þunguð, varpar hún henni á dyr. Hún lokkar svo prinsinn upp í turninn með afskornu hári Garðabrúðu, en þegar hann kemur upp segir nornin honum að hann fái aldrei að sjá hana aftur og hendir honum niður. Hann lendir í þyrnirunna og blindast. Eftir mörg ár finnur hann Garðabrúðu sem hann þekkir af röddinni og hún læknar blindu hans með tárum sínum.

Myndskreyting við ævintýrið eftir Paul Hey frá 1910.

Sagan birtist sem „Rapunzel“ í safni Grimmsbræðra fyrst árið 1812. Saga Grimmsbræðra er útgáfa af ævintýrinu Rapunzel eftir Friedrich Schulz frá 1790.[1] Útgáfa Schulz er byggð á Persinette („Steinselja“) eftir Charlotte-Rose de Caumont de La Force upprunalega frá 1698[2] sem aftur var eftir enn eldri sögu, „Petrosinella“ eftir Giambattista Basile, frá 1634.[3] Í flokkunarkerfi Aarne-Thompson hefur þessi sagnagerð númerið ATU310 („Mærin í turninum“), en svipaðar sögur eru til dæmis gríska goðsagan um fæðingu Perseifs og saga heilagrar Barböru.

Nafnið hefur verið þýtt á ýmsa vegu í íslenskum þýðingum; Rapunzel, Gullveig, Ragnmunda og Garðabrúða hafa verið notuð. Erlendu heitin vísa í jurtirnar sem móðirin stal eða fékk hjá norninni; Rapunzel er ætibláklukka (Campanula rapunculus).

Tilvísanir breyta

  1. Oliver Loo (2015) Rapunzel 1790 A New Translation of the Tale by Friedrich Schulz, Amazon, ISBN 978-1507639566. ASIN: B00T27QFRO
  2. Jack Zipes (1991) Spells of Enchantment: The Wondrous Fairy Tales of Western Culture, Viking, p. 794, ISBN 0670830534.
  3. „Rapunzel, Rapunzel, Let Down Your Hair“. Terri Windling.