Ráðuneyti Ásgeirs Ásgeirssonar

Ráðuneyti Ásgeirs Ásgeirssonar (stundum köllað samstjórn lýðræðissinna) er heiti á ríkisstjórn Ásgeirs Ásgeirssonar sem studd var af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Stofnað var til hennar upp úr stjórnarkreppu og var megintilgangurinn stjórnarinnar að finna lausn á deilum um kjördæmaskipan landsins sem hélt stjórnmálunum í gíslingu.

Aðdragandi og stjórnarmyndun

breyta

Ríkisstjórn Framsóknarflokksins undir forystu Tryggva Þórhallssonar hélt velli í Alþingiskosningunum 1931 í skjóli ójafns vægi atkvæða með einungis 35% fylgi. Stjórnin hafði hins vegar ekki meirihluta í efri deild og nýttu stjórnarandstöðuflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur þá stöðu til að stöðva mikilvæg stjórnarmál til að þrýsta á um breytingar á kjördæmakerfinu. Þetta leiddi til þess að stjórnin varð að biðjast lausnar í lok maí 1932.

Fráfarandi forsætisráðherra benti konungi á fjármálaráðherrann Ásgeir Ásgeirsson sem eftirmann sinn. Ásgeir kannaði ýmsa kosti: bæði möguleikann á að Framsóknarmenn mynduðu nýja stjórn einir eða að mynduð yrði samstjórn allra þriggja flokkanna á þingi. Niðurstaðan varð þó sú að Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn mynduðu stjórnina. Ekki var þó leitað til helstu leiðtoga flokkanna til að gegna ráðherraembættum, en auk Ásgeirs sátu Magnús Guðmundsson úr Sjálfstæðisflokki og Þorsteinn Briem í ríkisstjórninni, en sá síðarnefndi var Framsóknarmaður utan þings.

Stjórnin tók við störfum þann 3. júní og bar Jón Baldvinsson formaður Alþýðuflokksins þá þegar upp vantrauststillögu sem var felld með 30 atkvæðum gegn 4.

Sakamál gegn dómsmálaráðherra

breyta

Eitt síðasta verk Jónasar Jónssonar frá Hriflu í embætti dómsmálaráðherra var að hefja málarekstur gegn verðandi eftirmanni sínum, Magnúsi Guðmundssyni. Tengdist málið ásökunum um afbrot Magnúsar í gjaldþrotamáli sem hann hafði sinnt sem lögmaður nokkrum árum fyrr.

Hermann Jónasson lögreglustjóri í Reykjavík sem jafnframt fór með dómsvald, dæmdi Magnús til fangelsisvistar í nóvember 1932. Þar sem Hermann var Framsóknarmaður og handgenginn Jónasi frá Hriflu voru Sjálfstæðismenn sannfærðir um að dómurinn væri af pólitískum rótum sprottinn.

Ekki þótti dómsmálaráðherra sætt í embætti með dóm á bakinu og sagði Magnús því af sér. Ólafur Thors við starfinu og gegnd því um tveggja mánaða skeið, uns Magnús var sýknaður í Hæstarétti. Á þessum skamma tíma í embætti náði Ólafur að skipa Helga Tómasson á nýjan leik sem yfirlækni á Kleppsspítala og lauk með því hatrömmum deilum sem nefndar hafa verið Stóra bomban.

Stjórnarskrárbreytingar

breyta

Aukið vægi sveitakjördæma á kostnað þéttbýlisstaðanna gagnaðist Framsóknarflokknum vel en var þyrnir í augum annarra flokka, einkum Alþýðuflokks og Kommúnistaflokksins sem sóttu fylgi sitt að langmestu leyti til bæjanna. Stuðningur Sjálfstæðismanna við ríkisstjórnina var bundinn því að unnt yrði að finna lausn á kjördæmamálinu.

Eftir langar og strangar viðræður komu fulltrúar stjórnarflokkanna tveggja, þeir Tryggvi Þórhallsson og Ólafur Thors, sér saman um málamiðlun sem fól í sér að þingmönnum væri fjölgað í 49 og tekin væru upp uppbótarsæti. Þannig færi þingstyrkur einstakra flokka nær því að endurspegla fylgi þeirra á landsvísu þótt áfram ætti landsbyggðin hlutfallslega fleiri þingmenn en þéttbýlið.

Kosningar 1933 og stjórnarslit

breyta

Stjórnarskrárbreytingarnar voru samþykktar í lok vorþings 1933. Þar sem samþykkja þarf breytingar á stjórnarskrá tvívegis með kosningum á milli var þing rofið og gengið til nýrra kosninga þann 16. júlí. Kosið var eftir gömlu kosningareglunum og tapaði Framsóknarflokkur miklu fylgi, en aðrir flokkar unnu ár. Þannig hlaut Sjálfstæðisflokkurinn mesta fylgi í sögu sinni, 48%.

Gerðust þær raddir háværar að kalla bæri saman aukaþing til að staðfesta stjórnarskrárbreytinguna svo unnt væri að kjósa eftir nýju kosningakerfi þegar að hausti. Ekki var fallist á þær kröfur og fór að lokum svo að ekki var gengið aftur til kosninga fyrr en 24. júní 1934.

Skiptar skoðanir voru innan Framsóknarflokksins um ágæti þess að kjósa strax aftur. Þegar þing kom saman í nóvember 1933 samþykkti þingflokkurinn að slíta stjórnarsamstarfinu og baðst Ásgeir Ásgeirsson þegar lausnar, en sat þó áfram uns ný stjórn hafði verið mynduð. Vildu Framsóknarmenn freista þess að reyna stjórnarsamstarf með Alþýðuflokki sem hefði haft minnsta mögulega minnihluta. Ekki náðist samstaða um þau áform sem leiddi til klofnings, þar sem hluti flokksmanna mynduðu Bændaflokkinn en Ásgeir Ásgeirsson gerðist þingmaður utan flokka.

Ríkisstjórnin sat til 28. júlí 1934, þegar stjórn hinna vinnandi stétta tók við völdum. Hafði stjórnin þá í raun verið umboðslaus í á níunda mánuð.

Ráðherrar

breyta

Tilvísanir og heimildir

breyta
  • Dr. Magnús Jónsson (1957). Sjálfstæðisflokkurinn: fyrstu fimmtán árin.