Pétur 3. Rússakeisari
Pétur 3. (21. febrúar 1728 – 17. júlí 1762) (rússneska: Пётр III Фëдорович eða Pjotr III Fjodorovítsj) var keisari Rússlands í sex mánuði árið 1762. Hann fæddist í Kíl undir nafninu Karl Peter Ulrich og var einkabarn Karls Friðriks hertoga af Holstein-Gottorp (sonar Heiðveigar Soffíu af Svíþjóð, dóttur Karls 11. Svíakonungs) og Önnu Petrovnu (elstu eftirlifandi dóttur Péturs mikla). Þar sem Pétur var þýskur og kunni rússnesku varla var hann sem keisari mjög hlynntur Prússum og uppskar fyrir það miklar óvinsældir í Rússlandi. Pétri var steypt af stóli og hann mögulega myrtur í samsæri konu sinnar, sem gerðist síðan sjálf keisaraynja Rússlands undir nafninu Katrín 2. og ríkti næstu þrjátíu árin. Einnig er þó hugsanlegt að Pétur hafi verið drepinn þegar hann réðst á lífvörð sinn í fangavist eftir valdarán Katrínar.[2]
| ||||
Pétur 3.
| ||||
Ríkisár | 5. janúar 1762 – 6. júlí 1762 | |||
Skírnarnafn | Karl Peter Ulrich | |||
Fæddur | 21. febrúar 1728 | |||
Kíl, Holtsetalandi | ||||
Dáinn | 17. júlí 1762 | |||
Ropsja, rússneska keisaradæminu | ||||
Gröf | Dómkirkja Péturs og Páls, Sankti Pétursborg, Rússlandi | |||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Karl Friðrik hertogi af Holstein-Gottorp | |||
Móðir | Heiðveig Soffía af Svíþjóð | |||
Keisaraynja | Katrín mikla | |||
Börn | Páll 1. Rússakeisari (opinberlega; hugsanlega var hann ekki sonur Péturs í raun[1]) |
Valdatíð
breytaPétur varð keisari þann 5. janúar árið 1762 á mjög afdrifaríkum tíma: Rússar voru í miðju sjö ára stríðinu og höfðu nýlega unnið afgerandi sigur gegn Friðrik mikla, konungi Prússlands, í orrustunni við Kunersdorf. Staðan var svört fyrir Prússa og Friðrik var vonlítill um sigur[3] þegar fréttir bárust af því að Elísabet Rússakeisaraynja væri látin og hinn þýskættaði Pétur sestur á keisarastól í Rússlandi. Pétur var mikill aðdáandi Friðriks mikla og var því fljótur að semja um frið við Prússa. Rússar skiluðu Prússum öllu því landi sem þeir höfðu hertekið í stríðinu og gengu síðan í bandalag við þá gegn Austurríkismönnum. Friðarskilmálarnir voru í svo miklu ósamræmi við bága hernaðarstöðu Prússlands á þessum kafla stríðsins að Friðrik kallaði þá „Brandenborgarkraftaverkið“.
Rússar voru eðlilega öskureiðir Pétri fyrir að gefast upp á stríði sem Rússland var í þann mund að vinna án þess að ríkið fengi neitt fyrir sinn snúð. Pétur varð því mjög óvinsæll meðal rússnesku hástéttanna og svo fór að honum var steypt af stóli eftir aðeins sex mánuði á valdastól af samsærismönnum sem studdu eiginkonu Péturs, Katrínu. Katrín var þýsk eins og Pétur en hún hafði lagt sig mun betur fram við að aðlagast rússneskri menningu og tungu og var því mun betur liðin. Pétur var neyddur til að segja af sér þann 28. júní og var síðan fluttur til hallarinnar Ropsja suðvestan við Pétursborg. Þar lést Pétur þann 17. júlí sama ár en óvíst er hvernig dauða hans bar að. Gjarnan er talið að stuðningsmaður Katrínar, Aleksej Orlov, hafi framið morðið í greiðaskyni við Katrínu og er til stuðnings þess vísað til bréfs sem fannst eftir dauða hennar.[4]
Á árunum eftir dauða Péturs stigu nokkrir fram sem þóttust vera hann og gerðu tilkall til rússnesku keisarakrúnunnar í hans nafni. Sá frægasti af þessum fölsku Pétrum var don-kósakkinn Jemeljan Púgatsjov, sem leiddi uppreisn gegn Katrínu miklu frá 1772 til 1774.
Tilvísanir
breyta- ↑ Zagare, Liena (18. ágúst 2005). „Dangerous Liaisons“. Arts+. The New York Sun. bls. 15. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2016. Sótt 17. febrúar 2016. „[...] it is very strongly suggested, that the later Romanovs were not, in fact, Romanovs.“
- ↑ Simon Dixon, Catherine the Great (London 2009) 124-125.
- ↑ David Fraser, Frederick the Great. King of Prussia (London: Allen Lane, 2000), bls. 419.
- ↑ „Fátæka og ófríða stúlkan, sem varð drottning“. Tíminn. 24. desember 1967. bls. 1136-1139; 1150.
Fyrirrennari: Elísabet |
|
Eftirmaður: Katrín 2. |