Ofnæmi
Ofnæmi er sjúkdómur af völdum of mikils næmis í ónæmiskerfinu fyrir efnum í umhverfinu sem eru að öðru leyti skaðlaus. Þessi efni geta valdið viðbrögðum þegar þeirra er neytt, þeim andað inn eða þegar þau komast í snertingu við húðina. Meðal algengra tegunda ofnæmis eru matarofnæmi, frjóofnæmi, exem og astmi. Einkenni ofnæmis eru meðal annars mæði, höfuðverkir, roði, blettir og kláði.[1]
Þótt börn fæðist ekki með ofnæmissjúkdóma[2] geta þeir byrjað á ungum aldri, oftast sem astma eða exem. Flest börn vaxa þó upp úr slíkum ofnæmissjúkdómum.[1] Ofnæmi getur borist frá móður til barns í gegnum brjóstamjólk ef barnið fær enga aðra fæðu.[2] Rannsóknir hafa leitt í ljós að draga megi úr líkum matarofnæmis með því að gefa börnum fæðu sem inniheldur algenga ofnæmisvalda (svo sem egg, mjólk, jarðhnetur) fyrir sex mánaða aldur.[2]
Ofnæmissjúkdóma má meðhöndla með misgóðum árangri. Stundum er hægt að venja líkamann ofnæmisvaldinum með því að sprauta stærri og stærri skömmtum af ofnæmisvaldinum í líkamann.[1] Annars er hægt að draga úr bráðaeinkennum sumra ofnæmissjúkdóma með lyfjum svo sem sterum og andhistamínum.
Algengi ofnæmissjúkdóma virðist fara vaxandi í Vesturlöndum. Í íslenskri rannsókn greindust 34% barna í 179 barna úrtaki með astma eða annars konar ofnæmi við átta ára aldur. Vísbendingar eru um að ofnæmissjúkdómar geti borist milli kynslóða en 73% þessara barna áttu foreldra eða systkini með ofnæmi.[3]
Heimildir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Ofnæmi - Doktor.is“. Sótt 2019.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „Er hægt að fæðast með ofnæmi og geta ungbörn haft ofnæmi fyrir brjóstamjólk?“. Vísindavefurinn. Sótt 3. febrúar 2019.
- ↑ „Ofnæmi og astmi hjá íslenskum börnum“. Sótt 3. febrúar 2019.