Njarðvíkurskriður

Njarðvíkurskriður er sæbrött fjallshlíð milli Borgarfjarðar eystra og Njarðvíkur. Þar var löngum hættuleg leið, meðal annars vegna grjóthruns, en þó fjölfarin. Bílvegur var fyrst ruddur um Njarðvíkurskriður árið 1950.

Krossinn á Njarðvíkurskriðunum

Það orð hefur löngum legið á Njarðvíkurskriðum að þar hafi fyrr á tíð orðið fjölmörg alvarleg slys, en ekki eru þó til margar staðfestar frásagnir um slys þar. Sagt var að óvættur sem Naddi hét byggi í skriðunum og sæti þar um ferðamenn og gerði þeim mein. Naddi var sagður halda sig í Naddagili, djúpu gili fast norðan við skriðurnar. Átti hann einkum að vera skeinuhættur þegar farið var um skriðurnar eftir að dimma tók.

Þjóðsögur segja að Jón í Gilsárvallahjáleigu í Borgarfirði, sonur Björns skafins, hafi glímt við Nadda og verið að því kominn að tapa þegar hann hét því að ef hann hefði óvættina undir skyldi hann reisa krossmark í skriðunum. Náði hann þá að sigra Nadda og hrinda honum í sjó fram en komst sjálfur illa leikinn til bæja. Lét hann svo reisa kross í skriðunum og var á hann letruð áskorun á latínu til allra sem framhjá fóru að krjúpa og gera bæn sína.

Kross er enn í skriðunum og hefur verið endurnýjaður en ekki er víst hvenær hann var fyrst settur upp. Raunar er á honum ártalið 1306 en óvíst hvað er að marka það. Björn skafinn, faðir Jóns, var uppi um miðja 16. öld og hafi krossinn verið settur upp að frumkvæði Jóns hefur það verið eftir siðaskipti, en slíkir krossar tengjast yfirleitt kaþólskum sið.

Önnur sögn segir að krossinn hafi verið reistur eftir að presturinn á Desjarmýri hrapaði til bana í skriðunum þegar hann var á leið til messuhalds í Njarðvík.

Nú er í Njarðvíkurskriðum kross sem smíðaður var af Árna Bóassyni 1954 og er eftirmynd af eldri krossi. Áletrunin er svohljóðandi: EFFIGIEM CHRISTI QUI TRANSIS PRONUS HONORA: ANNO MCCCVI - sem hefur verið þýtt svo: Þú sem ferð framhjá, fall fram og veittu ímynd Krists lotningu: Ár 1306. Og í bundnu máli:

Þú sem að framhjá fer
fram fall í þessum reit,
og Kristí ímynd hér
auðmjúkur lotning veit.

Tenglar breyta

  • Björn skafinn. Af vef snerpu.is“.

Heimildir breyta