Nýr vettvangur var stjórnmálahreyfing sem varð til árið 1990 og bauð fram lista til borgarstjórnar Reykjavíkur í sveitarstjórnarkosningunum árið 1990. Listinn fékk tvo borgarfulltrúa kjörna, Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur og Kristínu Á. Ólafsdóttur. Framboðið var sameignlegt framboð Alþýðuflokksins, klofningshóps úr Alþýðubandalaginu og fleiri aðila. Upphaflega hugmyndin með framboðinu var að sameina félagshyggjufólk og tók Nýr vettvangur þátt í því að í kosningum 1994 kom fram Reykjavíkurlisti.

Framboðið breyta

Hugmyndin að framboðinu mun hafa komið frá Alþýðuflokknum en upphaflega hugmyndin var að bjóða fram sameinaðan lista stjórnarandstöðuflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Kvennalista en ekki náðist samstaða um slíkt meðal flokkanna.[1]

Valið var á listann í prófkjöri í byrjun apríl árið 1990 en fulltrúaráð alþýðuflokksfélaganna í Reykjavík, Félag ungra alþýðubandalagsmanna, Reykjavíkurfélagið, Samtök um borgarmál og Samtök um nýjan vettvang stóðu að prófkjörinu.[2] 22 frambjóðendur gáfu kost á sér en sigurvegari prófkjörsins varð Ólína Þorvarðardóttir og leiddi hún lista framboðsins í borgarstjórnarkosningunum sem fram fóru þann 26. maí 1990. Í öðru sæti var Kristín Á. Ólafsdóttir en hún hafði áður verið borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins og ötull talsmaður sameiningar jafnaðarmanna. Nokkuð mjótt var á munum í baráttunni á milli Ólínu og Kristínar um fyrsta sætið en svo fór að lokum að Kristín laut í lægra hald. Munurinn var einungis 30 atkvæði en í heildina tóku 2.130 manns þátt í prófkjörinu.

Nýr vettvangur bauð fram undir listabókstafnum H en helstu áherslumál framboðsins voru úrbætur í leikskólamálum, fjölgun kaupleiguíbúða í Reykjavík og aukið gegnsæi í stjórnkerfi borgarinnar.[3]

Kosningaúrslit breyta

Í aðdraganda kosninganna gáfu skoðanakannanir til kynna að framboðið gæti átt von á að ná 3-4 kjörnum fulltrúum í borgarstjórn.[1] Niðurstaða kosninganna varð sú að Nýr vettvangur hlaut 8282 atkvæði eða 14,76% og hlaut tvo borgarfulltrúa kjörna, þær Ólínu Þorvarðardóttur og Kristínu Á. Ólafsdóttur sem áður hafði verið borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins.[4]

Tilvísanir breyta

  1. 1,0 1,1 Ingólfur Margeirsson, „Hvað verður um Nýjan vettvang?“, Alþýðublaðið 30. maí 1990 (skoðað 29. nóvember 2019)
  2. „Nýr vettvangur: 22 ætla í prófkjör“, Morgunblaðið, 3. apríl 1990 (skoðað 28. nóvember 2019)
  3. „Nýr vettvangur: Viljum taka á málum með hlýju og nærgætni - segir Bjarni P.“, Morgunblaðið, 15. maí 1990 (skoðað 28. nóvember 2019)
  4. Kosningasaga.wordpress.com, „Reykjavík 1990“ (skoðað 28. nóvember 1990)