Limbó (sjónvarpsþættir)

(Endurbeint frá Limbó (sjónvarpsþáttur))

Limbó var gamanþáttaröð í leikstjórn Óskars Jónassonar með Radíusbræður (Stein Ármann Magnússon og Davíð Þór Jónsson) í aðalhlutverkum. Þættirnir, sem urðu aðeins tveir, voru sýndir í Ríkissjónvarpinu 27. febrúar og 27. mars árið 1993. Í fyrri þættinum komu fram auk Steins og Davíðs, Helga Braga Jónsdóttir, Steinunn Ólafsdóttir og Sigurjón Kjartansson, en í seinni þættinum Sigurjón Kjartansson, Jón Gnarr, Gunnar Helgason og Hjálmar Hjálmarsson. Þættirnir gengu út á tilraun þeirra Steins og Davíðs til að gera skemmtiþátt í sjónvarpi þar sem allt gengur á afturfótunum. Þættirnir fylgdu í kjölfar mikilla vinsælda útvarpsþáttarins Radíus á Aðalstöðinni. Þeir fengu misjafna dóma. Aðeins var samið um gerð tveggja þátta og ekki varð framhald á því en Sveinn Einarsson, dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar lét af störfum um sama leyti og nokkru síðar tók Hrafn Gunnlaugsson við sem framkvæmdastjóri RÚV. Næsta ár voru stuttir sketsar („Radíusflugur“) með Steini Ármanni og Davíð Þór fluttir í dægurmálaþættinum Dagsljósi og haustið 1995 voru gamanþættirnir Radíus á besta tíma á laugardögum.

Þættirnir mörkuðu upphafið á löngu samstarfi Sigurjóns Kjartanssonar og Jóns Gnarr við gerð gamanþátta. Næstu ár unnu þeir saman að þáttaröðunum Heimsenda, Tvíhöfða og Fóstbræðrum.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.