Lifrarbræðsla er staður þar sem lifur úr fiski er brædd í lýsi. Úrgangur við lifrarbræðslu er grotti eða grútur. Lifrarbræðsla fór oft fram í skúrum og húsum í eigu útgerðarmanna og var staðsett nálægt sjó. Mengun þótti af stafa af bræðslunni. Árið 1915 voru þrjár lifrarbræðslur starfræktar í Reykjavík en sú fjórða fékk ekki starfsleyfi nema í Fossvogi: „Þorst. Jónsson vildi fá leyfi til að hafa lifrarbræðslu í Austurkoti í Kaplaskjóli, en fasteignanefnd þótti sem þá færi helst til mikið að kreppa að Reykjavíkurbæ, ef grútnum ætti að veita að honum úr öllum höfuðáttum, en nú er lifrarbræðsla í norðri, austri og suðri og því varla andandi í bænum nema í vestanátt, lagði nefndin því til, að beiðni þessari yrði synjað.“ Bæjaryfirvöld reyndu að koma öllum bræðslum fyrir saman í Fossvogi en það gekk ekki eftir því ekki mátti úthluta landi þar til einstakra manna.[1][2] Grútarbræðslur voru þá í Örfirisey, á Þormóðsstöðum og inni í Vatnagörðum.[3][4] Lifrarsamlag var stofnað í Vestmanneyjum árið 1932 og tók yfir starfsemi þeirra sex bræðslna sem þar voru starfræktar.[5]

Óskar Halldórsson hóf árið 1916 lifrarbræðslu í Herdísarvík og Selvogi og eftir 2 ár voru lifrarbræðslur hans 12 víðs vegar um Ísland.[6] Haustið 1916 var Óskar Halldórsson með lifrarbræðslu á Naustum við Ísafjörð. Að lokinni vertíð fyrir vestan, fylgdi Óskar Ísafjarðarbátunum til Sandgerðis og á vertíðinni þar keypti hann lifur af þeim. Aðstöðu hafði Óskar á Borgarkletti við Sandgerði, sem er eyja í Bæjarskerseyri og syðst í Sandgerðishverfi.

Tilvísanir breyta