Leopoldo Galtieri
Leopoldo Fortunato Galtieri Castelli (15. júlí 1926 – 12. janúar 2003) var argentínskur herforingi og stjórnmálamaður sem var forseti Argentínu frá 1981 til 1982, á tíma síðustu herforingjastjórnar landsins.
Leopoldo Galtieri | |
---|---|
Forseti Argentínu | |
Í embætti 22. desember 1981 – 18. júní 1982 | |
Varaforseti | Enginn |
Forveri | Carlos Lacoste |
Eftirmaður | Alfredo Saint-Jean |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 15. júlí 1926 Caseros, Argentínu |
Látinn | 12. janúar 2003 (76 ára) Búenos Aíres, Argentínu |
Þjóðerni | Argentínskur |
Stjórnmálaflokkur | Óflokksbundinn |
Maki | Lucía Noemí Gentili |
Börn | 3 |
Undirskrift |
Galtieri reyndi að auka vinsældir stjórnar sinnar með því að freista þess að innlima Falklandseyjar frá Bretlandi en þetta leiddi til Falklandseyjastríðsins árið 1983. Argentínumenn biðu skjótan ósigur í stríðinu og Galtieri neyddist í kjölfarið til að segja af sér. Herforingjastjórnin hrundi næsta ár og eftir að borgaraleg stjórnvöld tóku við völdum á ný var Galtieri handtekinn fyrir mannréttindabrot sem hann hafði framið í skítuga stríðinu. Carlos Menem forseti náðaði Galtieri árið 1989 ásamt fleiri argentínskum herforingjum.
Æviágrip
breytaGaltieri fæddist árið 1926 í Caseros í Búenos Aíres-héraði. Þegar hann var 17 ára skráði hann sig í herinn og útskrifaðist sem byggingaverkfræðingur úr ríkisherskólanum í Búenos Aíres. Hann útskrifaðist síðar úr Herskóla Ameríkuríkja í Panama.
Eftir 25 ára herþjónustu var Galtieri útnefndur foringi verkfræðideildar argentínska hersins árið 1975. Galtieri tók þátt í valdaráni herforingjans Jorge Rafael Videla gegn stjórn Isabel Martínez de Perón forseta árið 1976 og reis fljótt til metorða eftir að ný herforingjastjórn var stofnuð í landinu. Árið 1981 sagði Videla af sér sem forseti og Roberto Eduardo Viola tók við stjórn Argentínu. Sama ár fór Galtieri í opinbera heimsókn til Bandaríkjanna og hlaut viðtöku ríkisstjórnar Ronalds Reagan, sem leit á argentínsku herforingjastjórnina sem bandamann gegn kommúnistum í kalda stríðinu.
Í desember sama ár framdi Galtieri valdarán gegn Viola og gerðist sjálfur forseti. Efnahagur Argentínu var í slæmu standi og Galtieri vonaðist til þess að afturhvarf til efnahagsfrjálslyndis sem hafði tíðkast á forsetatíð Videla en Viola hafði dregið úr myndi hjálpa landinu að rétta úr kútnum. Galtieri tókst þó ekki betur en forvera sínum að vinna bug á efnahagslægðinni.[1]
Eftir fáeina mánuði í embætti naut Galtieri lítilla vinsælda meðal þjóðarinnar og mótmæli gegn herforingjastjórninni voru orðin tíð. Til þess að auka vinsældir sínar ákvað Galtieri að dreifa athygli þjóðarinnar og fá hana til að sameinast á bak við einn hjartfólgnasta málstað hennar; endurheimt Falklandseyja frá Bretlandi.[2] Þann 2. apríl 1982 skipaði Galtieri argentínska flotanum að hertaka Falklandseyjar og hóf þannig Falklandseyjastríðið gegn Bretlandi. Galtieri bjóst við því að Bretar myndu ekki svara hernámi Falklandseyja með hervaldi[3] og gerði jafnframt ráð fyrir því að Bandaríkjamenn myndu styðja Argentínumenn í deilunni þar sem Argentínumenn höfðu unnið með bandarísku leyniþjónustunni við þjálfun kontraskæruliða í Níkaragva. Þvert á væntingar hans voru Bretar fljótir að gera gagnárás og frelsa Falklandseyjar undan hernáminu. Argentínumenn báðu sviplegan ósigur í stríðinu og neyddust til að gefast upp þann 14. júní. Galtieri neyddist til að segja af sér fjórum dögum síðar og sagðist ekki lengur njóta trausts hersins.[4]
Herforingjastjórnin leið undir lok aðeins rúmu ári eftir afsögn Galtieri og borgaraleg lýðræðisstjórn tók við völdum í Argentínu á ný. Í lok ársins 1983 var Galtieri handtekinn og dæmdur í þrettán ára fangelsi fyrir fjöldamorð sem hann hafði skipað í bænum Margarita Belén árið 1976 í skítuga stríðinu.[5] Snemma á tíunda áratugnum náðaði Carlos Menem forseti Galtieri ásamt öðrum foringjum herforingjastjórnarinnar.[5] Galtieri átti áfram dóm yfir höfði sér á Spáni fyrir að hafa látið spænska ríkisborgara í Argentínu „hverfa“ á tíma skítuga stríðsins og gat því ekki ferðast frá Argentínu.[5]
Í júlí árið 2002 skipaði dómarinn Claudio Bonadío handtöku Galtieri ásamt um fjörutíu fleiri herforingjum fyrir aðrar ákærur tengdar mannshvörfum skítuga stríðsins.[5] Galtieri lést árið 2003 í stofufangelsi áður en málið hafði verið leitt til lykta.[6]
Tilvísanir
breyta- ↑ Maurice Lemoine (2015). Les enfants cachés du général Pinochet. Précis de coups d’Etat modernes et autres tentatives de déstabilisation. Don Quichotte. bls. 160.
- ↑ James Neilson (16. maí 1982). „Lýðræðið það skelfilegasta í augum herforingjanna“. Morgunblaðið. Sótt 24. nóvember 2019.
- ↑ "Que tenía que ver con despertar el orgullo nacional y con otra cosa. La junta —Galtieri me lo dijo— nunca creyó que los británicos darían pelea. Él creía que Occidente se había corrompido. Que los británicos no tenían Dios, que Estados Unidos se había corrompido. ... Nunca lo pude convencer de que ellos no sólo iban a pelear, que además iban a ganar." („Þetta snerist hvorki um þjóðarstolt né neitt annað. Herforingjastjórnin – sagði Galtieri mér – bjóst aldrei við því að Bretar myndu bregðast við. Hann hélt að hinn vestræni heimur væri spilltur. Að breska þjóðin ætti engan Guð, að Bandaríkin væru spillt ... ég gat aldrei sannfært hann um að Bretar myndu ekki einungis veita mótspyrnu, heldur einnig sigra.“) La Nación/Islas Malvinas Online. „Haig: "Malvinas fue mi Waterloo"“ (spænska). Afrit af upprunalegu geymt þann 8. september 2006. Sótt 21. september 2006.
- ↑ „Galtieri hrökklast frá völdum“. Dagblaðið Vísir. 18. júní 1982. Sótt 24. nóvember 2019.
- ↑ 5,0 5,1 5,2 5,3 Victoria Ginzberg, Galtieri, buscado junto a otros reos, Página/12, 11. júlí 2002
- ↑ „Galtieri látinn“. Morgunblaðið. 13. janúar 2003. Sótt 24. nóvember 2019.
Fyrirrennari: Carlos Lacoste |
|
Eftirmaður: Alfredo Saint-Jean |