La Corde au cou (íslenska: Með snöru um hálsinn) eftir franska teiknarann Achde (Hervé Darmenton) og höfundinn Laurent Gerra er 74. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 2006 og hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.

Kápa frönsku útgáfu bókarinnar.

Söguþráður breyta

Fangelsin í Villta Vestrinu eru orðin yfirfull og ríkisstjórnin, sem þarf að taka á vandanum, ákveður að Daldónarnir skuli hengdir innan tveggja vikna í stað þess að afplána 387 ára fangelsisdóm sinn. Daldónarnir fyllast skelfingu, en komast að því að samkvæmt gömlum lagabókstaf er eini möguleiki þeirra til að sleppa við hengingu að ganga í hjónaband áður en aftakan fer fram. Þeir skrifa móður sinni bréf í flýti, en henni verður ekkert ágengt í því að finna sonum sínum fjórum konuefni. Öll nótt virðist úti fyrir Daldónana, en á síðustu stundu fær Mamma Dagga höfðingja Flathöfða-indíána, Glaðlynda Örn, til að fallast á að gefa fjórar dætur sínar í hjónaband með bræðrunum gegn því að þeir hjálpi indíánunum að ræna banka. Daldónarnir þykjast hólpnir og Lukku Láki fylgir þeim á verndarsvæði indíánanna. Hjónabandssælan varir þó ekki lengi þegar í ljós kemur að þrjár af fjórum dætrum Glaðlynda Arnar reynast hin mestu sköss.

Fróðleiksmolar breyta

  • Hið franska heiti bókarinnar felur í sér orðaleik sem vísar bæði til hengingarólarinnar og fjötra hjónabandsins.
  • Sagan birtist upphaflega í eilítið breyttri útgáfu í TV Magazine, sjónvarpsdagskrá sem fylgdi dagblöðum í Frakklandi. Þar mátti sjá Lukku Láka vefja síðustu sígarettuna fyrir Jobba Daltón á gálganum. Þegar sagan kom út í bókarformi var þessum hluta skipt út fyrir senu þar sem prestur reynir að hughreista Ibba Daltón.
  • Í umsögn um bókina á forbiddenplanet.co.uk fengu höfundarnir skömm í hattinn fyrir að bregða upp klisjukenndri mynd af eiginkonum Daldónanna og indíánum almennt.
  • Brúðkaupsveisla Daldónanna í indíánaþorpinu er augljóslega skírskotun til bókanna um Ástrík gallvaska.
  • Vagneklarnir tveir í bókinni eru tvífarar bandarísku kvikmyndaleikaranna John Wayne og Kirk Douglas. Þá bregður leikkonunni Elizabeth Taylor einnig fyrir.