Borgarastyrjöldin í Líbanon

(Endurbeint frá Líbanska borgarastríðið)

Borgarastyrjöldin í Líbanon stóð frá 13. apríl 1975 til 13. október 1990. Áætlað er að styrjöldin hafi kostað 120.000 manns lífið og sent hundruð þúsunda á vergang. Talið er að um milljón manns hafi flúið Líbanon vegna styrjaldarinnar og um 76.000 eru enn vegalaus innan Líbanon. Upphafleg ástæða styrjaldarinnar var brottrekstur Frelsissamtaka Palestínu (PLO) frá Jórdaníu eftir svarta september 1970. Palestínskir skæruliðahópar flúðu til Suður-Líbanon þar sem yfir 300.000 palestínskir flóttamenn bjuggu. Þar stóðu þeir fyrir árásum í Norður-Ísrael. Ísraelsher stóð svo aftur fyrir aðgerðum gegn skæruliðum í Líbanon. Í Líbanon ríktu kristnir maronítar í krafti þjóðarsáttmálans frá 1943 sem byggðist á manntali frá 1932. Breytingar á samsetningu þjóðarinnar leiddu til vaxandi óánægju með yfirráð maroníta meðal annarra hópa, einkum líbanskra drúsa og múslima auk vinstrisinnaðra stjórnmálaflokka. Veik ríkisstjórn og her gerðu það að verkum að PLO tókst að leggja undir sig stór svæði í borgum Líbanon án þess að stjórnin gæti rönd við reist. Vinstriflokkar, múslimar og drúsar mynduðu líbönsku þjóðarhreyfinguna sem gerði bandalag við PLO en hægrisinnaðir stuðningsmenn stjórnarinnar mynduðu líbanska framvörðinn. Ísrael og mörg Evrópuríki studdu framvörðinn en þjóðarhreyfingin fékk stuðning frá nokkrum arabaríkjum og PLO. Fjöldi annarra hópa tók einnig upp vopn. Í Suður-Líbanon varð Amalhreyfingin vinsæl meðal sjíta sem voru andsnúnir bæði PLO og Ísrael.

Græna línan sem skipti Beirút í tvennt árið 1982

Upphaf átaka og inngrip Sýrlands

breyta
 
Herflokkur á vegum Fatah-hreyfingarinnar í janúar 1979

Vorið 1975 voru skærur milli þjóðarhreyfingarinnar og framvarðarins. Þann 13. apríl skutu byssumenn á kirkju í Austur-Beirút með þeim afleiðingum að fjórir létust. Síðar sama dag réðust liðsmenn líbönsku fylkingarinnar (sem var hluti af framverðinum) á rútu sem í voru Palestínumenn og drápu 30 manns. Í kjölfari þessara atburða hófu fylkingarnar að koma sér upp bækistöðvum í hótelum og Hótelstríðið hófst. Morð á almennum borgurum í hefndarskyni fyrir aðgerðir andstæðinganna urðu algeng og leiddu til þess að fólk flúði til borgarhluta sem voru undir stjórn eigin trúflokks. Austur- og Vestur-Beirút skiptust því í vaxandi mæli eftir trúarbrögðum. Vorið 1976 voru maronítar á barmi ósigurs en þá hóf Ísraelsstjórn að láta þeim í té hergögn og Sýrlandsstjórn ákvað að styðja stjórnina og sendi herlið til Beirút. Maronítar náðu þá yfirhöndinni og drápu í kjölfarið 2000 Palestínumenn í flóttamannabúðum í Austur-Beirút. Í október fékk Sýrland umboð Arababandalagsins til að hafa 40.000 hermenn í Beirút til að stilla til friðar. Þar með lauk fyrsta hluta borgarastyrjaldarinnar en ófriður braust brátt aftur út í Suður-Líbanon þegar skæruliðar PLO sneru þangað aftur frá Beirút.

Stríðið hefst að nýju 1978

breyta

Í Beirút hófst Hundrað daga stríðið 1978 þegar kristnir framvarðarmenn hófu skæruhernað gegn sýrlenska hernum sem brást við með sprengjuárásum á Austur-Líbanon. Á sama tíma stóð skæruhernaður PLO í Norður-Ísrael sem hæst. Ísraelsher lagði því suðurhluta Líbanon, sunnan við Litanifljót, undir sig. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti þá ályktun 425 þar sem þess var krafist að Ísrael drægi herlið sitt strax til baka og að friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna í Líbanon myndu reyna að koma á friði. Ísraelsher hvarf frá svæðinu en hélt eftir stjórn á 19km breiðu öryggisbelti við landamærin sem bandamenn þeirra í Suðurlíbanska hernum gættu.

Í desember 1980 hóf Sýrlandsher að setja upp vegatálma við borgina Zahleh nálægt sýrlensku landamærunum. Þeir óttuðust að hægrisinnaðir hópar í borginni myndu gera bandalag við Ísrael sem setti aðalveginn frá Damaskus til Beirút í hættu. Sýrlendingar settust um borgina og reyndu að leggja hana undir sig síðar sama ár en mistókst. Þann 1. apríl hófust bardagar milli líbanskra herflokka í borginni og Sýrlandshers. Bardaginn um Zahleh stóð til 30. júní 1981 þegar samningar náðust um að Sýrlandsher hyrfi frá borginni.

Innrás Ísraels 1982

breyta
 
Ísraelskir hermenn í Suður-Líbanon í júní 1982

Í júní 1982 reyndu Abu Nidal-samtökin að myrða sendiherra Ísraels í London. Ísrael brást við með því að ráðast gegn bækistöðvum PLO í Líbanon. PLO brást þá við með sprengjuárásum gegn Ísrael. Ísraelsher gerði þá innrás í Líbanon og settist um Beirút. Í borginni vörðust hersveitir PLO og Sýrlands. Eftir mikið mannfall í borginni samþykktu þeir friðarsamkomulag sem fól í sér brotthvarf PLO frá Líbanon og að alþjóðlegt herlið tæki við vörn borgarinnar. Um 8500 meðlimir PLO voru fluttir til Túnis og 2500 til annarra arabaríkja. Þann 17. mars samdi forseti Líbanons Amine Gemayel um frið við Ísrael fyrir milligöngu Bandaríkjamanna. Samkomulagið fól í sér brotthvarf bæði Ísraelshers og Sýrlandshers frá Líbanon en í arabaheiminum var almennt litið á það sem uppgjöf fyrir Bandaríkjunum. Brotthvarf Ísraelshers frá héraðinu Chouf suðaustan við Beirút í ágúst 1983 leiddi til Stríðsins um fjallið milli maroníta og drúsa.

Árið 1983 voru tvær mannskæðar sjálfsmorðssprengjuárásir gerðar á sendiráð Bandaríkjanna og höfuðstöðvar alþjóðlega herliðsins. Þegar Bandaríkjaher hvarf frá Líbanon í febrúar 1984 hurfu margir múslimar og drúsar úr líbanska hernum og gengu í raðir skæruliðaflokka. Um leið urðu Hezbollah-samtökin til sem klofningshópur sjíamúslima sem voru andsnúnir Ísrael og þáðu aðstoð frá Íran. Eftir 1985 jukust átökin og Stríðið um flóttamannabúðirnar stóð frá 1985 til 1986 þegar líbanski herinn reyndi, með stuðningi Sýrlendinga, að hrekja skæruliða PLO úr flóttamannabúðum Palestínumanna í Beirút og Suður-Líbanon. Helstu átökin voru milli Amalhreyfingarinnar og Hezbollah, en báðir flokkar voru skipaðir sjíamúslimum. Brátt sameinuðust vinstrisinnaðir hópar, drúsar og Palestínumenn gegn Amalhreyfingunni og átök blossuðu upp aftur í Beirút. Kristni herforinginn Michel Aoun varð forsætisráðherra eftir afsögn Gemayels og fékk stuðning frá Írak. Borgarastyrjöldin varð þá eins konar leppstríð milli Írans og Íraks. Bardagar blossuðu upp milli kristinna herflokka og líbanska hersins í kjölfarið og drógu verulega úr styrk þeirra.

Innrás Sýrlands og stríðslok 1990

breyta

Þann 13. október 1990 réðist Sýrlandsher inn í landið og settist um forsetahöllina. Aoun flúði til Frakklands. Sumir hafa haldið því fram að Sýrlandsstjórn hafi getað gert þetta án afskipta Ísraelshers í skiptum fyrir stuðning við Bandaríkjamenn í Persaflóastríðinu. Borgarastyrjöldinni lauk þar með formlega. Árið eftir var gefin út almenn sakaruppgjöf og herflokkarnir leystir upp. Líbanski herinn var byggður upp á ný þótt landið væri hernumið af Sýrlendingum. Þegar Sýrlandsstjórn var bendluð við morðið á fyrrum forsætisráðherra Líbanons Rafic Hariri árið 2005 hratt það Sedrusbyltingunni af stað. Í kjölfarið hvarf Sýrlandsher frá Líbanon.