Látraströnd

(Endurbeint frá Látrar)

Látraströnd er strandlengjan austan við utanverðan Eyjafjörð og nær frá Grenivík í suðri og norður á Gjögurtá.

Séð frá Dalvík yfir Eyjafjörð til Látrastrandar.

Ströndin dregur nafn sitt af bænum Látrum, sem fór í eyði 1942 og voru yst á ströndinni. Önnur eyðibýli á Látraströnd, talin suður frá Látrum: Grímsnes, Sker, Miðhús, Steindyr, Jaðar, Svínárnes, Hringsdalur og Hjalli. Syðsti bærinn er í byggð: Finnastaðir, rétt norðan Grenivíkur. Yfir ströndinni gnæfa fjöllin Kaldbakur, Skersgnípa og Einbúi.

Á Látraströnd er lítið undirlendi og hvergi nema mjó ræma. Þar er snjóþungt og snjóa leysir seint á vorin. Vetrarbeit var því lítil vegna snjóþyngsla þótt þarna sé gott sauðland á sumrin og heyskapur var erfiður svo að bændur á ströndinni reiddu sig mjög á sjósókn. Snjóflóðahætta er víða á ströndinni og meðal annars eyddust tveir bæir þar í snjóflóði 1772. Bæirnir á utanverðri ströndinni fóru allir í eyði fyrir miðja 20. öld og þar eru hvergi hús uppistandandi en tóftir og rústir sjást víða og skáli ferðafélagsins Fjörðungs er á Látrum. Vegarslóði liggur frá Grenivík út ströndina að Grímsnesi, um 7 kílómetrum fyrir sunnan Látra.

Látraströnd tilheyrir Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu.

Látrar

breyta

Látrar á Látraströnd í Suður-Þingeyjarsýslu eru eyðibýli. Bærinn dró nafn sitt af sellátrum og kallaðist reyndar Sellátur til forna (í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín), og er nefndur Hvallátur í Landnámabók. Frá Látrum var mikil útgerð áður fyrr, og var bærinn ein mesta miðstöð hákarlaútgerðar á Íslandi. Þar er í dag slysavarnarskýli, og sjást miklar tóftir af bæjarhúsum og verbúðum frá fyrri tíð. Lending er þokkaleg fyrir litla báta. Frá Látrum er fær landleið í suður yfir Látrakleifar, torfær á sumrin og mjög illfær á vetrum. Í austur er leið yfir Uxaskarð til Keflavíkur.

Sjá einnig

breyta