Kristján Helgi Guðmundsson
Kristján Helgi Guðmundsson (10. september 1943 - 28. maí 2022) var bæjarstjóri í Kópavogi frá 1982 til 1990. Hann hafði áður verið félagsmálastjóri bæjarins frá 1971.
Foreldrar Kristjáns voru Guðmundur Bergmann Magnússon (1913-1990) og Svava Bernharðsdóttir (1914-2002) og var Kristján þriðji í röð fjögurra systkina.
Kristján lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1964 og fyrrihlutaprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands árið 1967. Hann nam einnig íslensku og sögu við Háskóla Íslands og hafði kennsluréttindi. Hann var um tíma kennari við Vogaskóla í Reykjavík, en eftir að háskólanámi lauk hóf hann störf hjá Kópavogsbæ. Var félagsmálastjóri þar frá 1971 til 1982 og bæjarstjóri frá 1982 til 1990. Að bæjarstjóratíð lokinni var hann verkefnastjóri í velferðarmálum hjá Hafnarfjarðarbæ og sinnti þar meðal annars málefnum eldri borgara.
Kristján var um skeið formaður Myndlistarskóla Kópavogs, kom að stofnun Fjölsmiðjunnar og var virkur þátttakandi í Norræna félaginu á Íslandi. Þá var hann um skeið gjaldkeri Breiðabliks og sat í stjórn hestamannafélagsins Fáks auk fleiri starfa. Einnig lét Kristján að sér kveða í ýmsu pólitísku starfi, einkum á síðari árum, og þá á vettvangi Samfylkingarinnar.
Kona Kristjáns var Margrét Hjaltadóttir kennari (f. 1944) og eignuðust þau þrjú börn.[1]
Fyrirrennari: Bjarni Þór Jónsson |
|
Eftirmaður: Sigurður Geirdal |
Heimildir
breyta- Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson (ritstj.) (1990). Saga Kópavogs - Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Lionsklúbbur Kópavogs. bls. 29-30.