Kristín Gottskálksdóttir

Kristín Gottskálksdóttir (d. 14. apríl 1578) var íslensk kona á 16. öld, húsfreyja á Möðruvöllum í Eyjafirði og síðar á Geitaskarði í Langadal. Hún var óskilgetin dóttir Gottskálks Nikulássonar Hólabiskups, sem kallaður var hinn grimmi, og Valgerðar Jónsdóttur frá Mannskaðahóli á Höfðaströnd. Hálfsystkini hennar voru Oddur Gottskálksson lögmaður og Guðrún Gottskálksdóttir.

Kristín hefur líklega verið fædd um 1490. Hún giftist 3. september 1508 Þorvarði Erlendssyni lögmanni, sem þá var rúmlega fertugur, og var hún seinni kona hans. Þorvarður lést í Noregi 1513. Þau áttu eina dóttur, Margréti húsfreyju á Fitjum í Skorradal, sem þó er í sumum heimildum talin dóttir fyrri konu Þorvarðar.

Kristín giftist aftur 21. janúar 1515 Jóni Einarssyni sýslumanni á Geitaskarði í Langadal og bjuggu þau þar uns Jón dó 1534. Kristín var þar áfram hjá Agli syni þeirra og síðan ekkju hans og börnum. Hún náði háum aldri og hefur líklega verið farin að nálgast nírætt þegar hún lést því það var tæpum 70 árum eftir að hún giftist fyrri manni sínum. Hún var sögð hin ágætasta kona. Önnur börn þeirra Jóns voru Kristín, húsfreyja í Vík í Skagafirði, Guðrún, sem giftist Erlendi Þorvarðarsyni, stjúpsyni móður sinnar og var miðkona hans, Ólafur, sem bjó í Snóksdal og var kvæntur Steinunni ekkju séra Björns Jónssonar á Melstað, og Gottskálk prófastur í Glaumbæ.