Krabbameinsfélag Íslands

Krabbameinsfélag Íslands er almannaheillafélag sem stofnað var þann 27. júní 1951. Félagið vinnur gegn krabbameini með fjölbreyttum hætti og hefur að markmiði að bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra.

Krabbameinsfélagið
Stofnun27. júní 1951
GerðAlmannaheillafélag
MarkmiðAð draga úr nýgengi krabbameina og dánartíðni af völdum þeirra og bæta lífsgæði þeirra sem greinast og aðstandenda þeirra.
HöfuðstöðvarSkógarhlíð 8, 105 Reykjavík

Krabbameinsfélagið hefur vakið mikla athygli fyrir fræðslu- og fjáröflunarátök sín, þar á meðal Mottumars og Bleiku slaufuna, sem hafa stuðlað að viðgangi félagsins.

Krabbameinsfélag Íslands var stofnað þann 27. júní 1951 en nokkur svæðafélög voru þegar starfandi á þeim tíma. Níels Dungal var fyrsti formaður félagsins. Félagið gerðist aðili að Alþjóðakrabbameinssambandinu árið 1952.

Í upphafi lagði félagið áherslu á fræðslu og forvarnir, meðal annars með útgáfu tímarits er kallaðist Fréttabréf um heilbrigðismál. Félagið stóð fyrir söfnun fjár til tækjakaupa og byggingar húsnæðis fyrir krabbameinslækningar. Árið 1954 hófst skráning krabbameina og í kjölfarið rannsóknir á orsökum og faraldsfræði krabbameina. Tölvudeild var stofnuð árið 1986 til að vinna úr gögnum. Rannsóknastofu í sameinda- og frumulíffræði var hleypt af stokkunum árið 1987. Einnig hófst starfsemi líknarmeðferðar er kallaðist Heimahlynning árið 1987. Árið 2007 var Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins stofnuð.

Krabbameinsfélagið hefur beitt sér fyrir banni við tóbaksauglýsingum og lausasölu á vindlingum. Félagið hefur einnig veitt fræðslu um skaðsemi reykinga í skólum.

Félagið hefur staðið fyrir leit að krabbameini, meðal annars með leit að leghálskrabbameini sem hófst árið 1964, tilraun með leit að krabbameini í ristli og endaþarmi á árunum 1986 til 1993, og skipulegri leit að brjóstakrabbameini með röntgenmyndatöku sem hófst árið 1987.

Heimildir

breyta