Krókárgerði

Krókárgerði er eyðibýli undir Öxnadalsheiði, fremst í Norðurárdal í Skagafjarðarsýslu. Var búið þar fram til 1898, en þá var kotið lagt undir Silfrastaðaafrétt. Í eldri heimildum er bærinn stundum nefndur Krákugerði.

„Undirlendi er þar sáralítið og jörð heldur óræstisleg á alla vegu ef heyskapur er hafður í huga. - Fjallið ofan við bratt og ofur hátt, mosagróið og lyngivaxið upp til hlíða, en ekki grösugt,“ segir Rósberg G. Snædal í þættinum „Óðurinn um eyðibýlið“, sem birtist í bókinni Fólk og fjöll. Þar er hann að fjalla um ljóðið Krókárgerði eftir Ólínu Jónasdóttur skáldkonu, en hún átti um tíma heima í Krókárgerði á æskuárum.

Þekktastur bænda í Krókárgerði er Ormur Jónsson, sem þar bjó lengi á 18. öld og búnaðist ágætlega þótt hann væri barnmargur (sagt er að hann hafi átt 20 börn) og jörðin ekki búsældarleg en þar er gott beitiland fyrir sauðfé.[1] Til marks um það er þessi vísa:

Í Krókárgerði kulsamt er,
kemur þar jafnan stormur.
Samt eru fínir sauðirnir
sem á karlinn Ormur.[2]

TilvísanirBreyta

  1. Frjáls þjóð, 35. tbl. 1964.
  2. Lausavísnasafn Héraðsskjalasafns Skagfirðinga.[óvirkur hlekkur] Sótt 2. maí 2011.

HeimildirBreyta

  • „„Yfir fjöllin flýgur þrá“. Lesbók Morgunblaðsins, 7. ágúst 1999“.