Klængshóll er innsti bær í Skíðadal. Bærinn stendur austan Skíðadalsár og tilheyrir sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð. Fyrr á öldum var bærinn oft nefndur Blængshóll. Klængshólsdalur/Holárdalur skerst inn á milli fjallanna sunnan Klængshóls. Eftir honum rennur Holá og í henni er Holárfoss skammt ofan ármótanna við Skíðadalsá. Ofan bæjarins rísa há fjöll. Þar er Kvarnárdalshnjúkur og innan við hann Dýjafjallshnjúkur (1445 m), hæsta fjall í fjallahring Svarfaðardals. Á Klængshóli er rekið ferðaþjónustufyrirtækið Bergmenn, sem sérhæfir sig í fjallaklifri, fjallaskíðamennsku og þyrluskíðamennsku. Einnig er þar boðið er upp á gönguferðir með leiðsögn í hrikalegu umhverfi Tröllaskagans jafnt að sumri og vetri og ýmis námskeið tengd náttúru og heilsu. Aðaleigandi fyrirtækisins er fjallaleiðsögumaðurinn Jökull Bergmann.

Klængshóll í Skíðadal, mynd tekin í mars 2008.
Klængshóll í Skíðadal 2015

Anna Dóra Hermannsdóttir, jógakennari og leiðsögumaður og Örn Arngrímsson, höfuðbeina- og spjaldhryggjarþerapisti, eru einnig með starfsemi á Klængshóli.