Kjartan Ólafsson (tónlistarmaður)

Kjartan Ólafsson (fæddur 1958) lauk stúdenstprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1980. Hann stundaði nám við nýstofnaða tónfræðadeild í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk prófi í tónsmíðum þaðan árið 1984. Næstu tvö árin stundaði hann nám í raftónlist í Hollandi við Utrecht Conservatory og Institute for Sonologie. Frá 1986 til 1995 stundaði hann tónsmíðanám hjá Einojuhani Rautavaara og Paavo Heininen við Sibeliusarakademíunni í Finnlandi þaðan sem hann lauk Licentiat (PhD) gráðu í tónlist.

Tónverk Kjartans teljast tæplega hundrað og má þar nefna einleiksverk, söngverk, ballettverk, leikhúsverk, óperur, kammerverk, raftónverk, dægurtónlist, barnatónlist, spunatónlist, kórverk, konserta og hljómsveitarverk.

Frá 1988 hefur Kjartan unnið að hönnun og þróun tónsmíðaforritsins CALMUS. Forritið byggir m.a. á gervigreindartækni og er hannað sérstaklega fyrir nútímatónsmíðar og rannsóknir. Á meðal verkefna sem tengjast því má nefna rannsóknir og hönnun reiknimódela á sviði gervigreindar fyrir tónsmíðalega framvindu, reiknislegt mat á hljómum með tilliti til ómstreytu, lita, tónbila, yfirtónaskyldleika og hljómaframvindu. Þá má nefna rannsóknir á sviði laglínugerðar með gervigreindartækni í hlutbundnu forritunarumhverfi ásamt reiknislegum samanburði í laglínu- og hljómagerð. Í tengslum við þessi verkefni hefur hann notið styrkja m.a. frá Sibelius Akademíunni, finnska menntamálaráðuneytinu, Rannís, menntamálaráðuneytinu á Íslandi og NorFa.

Kjartan hefur ritað greinar og haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um algrímskrar aðferðir í gervigreindarumhverfi fyrir tónlist og rannsóknir á því sviði, m.a. við Háskóla Íslands, Sibeliusar Akademíuna í Finnlandi, New York University, á alþjóðlegu ICMC tölvutónlistarhátíðinni, International Computer Music Festival, og við EMS – Electro-Acoustic Music stofnunina í Svíþjóð. Tónlist hans hefur verið flutt opinberlega víða um heim s.s. á hinum ýmsum tónlistarhátíðum - Norrænum músíkdögum, ISCM - International Society for Contemporary music, Avanti sumarhátíðin í Finnlandi, Myrkum músíkdögum, ICMC - International Computer Music Festival og Listahátíð í Reylkjavík.

Kjartan starfar á Íslandi sem tónskáld, kennari við Tónlistardeild Listaháskóla Íslands, og að ýmsum rannsóknum á sviði tónlistar. Þá hefur hann starfað að ýmsum félagsmálum m.a. fyrir UNM, Ung Nordisk Musik, STEF og Tónskáldafélag Íslands og starfað að tónleikahaldi m.a. í samvinnu við Reykjavík, menningarborg Evrópu árið 2000 og Listahátíð í Reykjavík. Árið 2005 var Kjartan Skipaður prófeesor í tónsmíðum og tónfræði við Listaháskóla Íslands.

Tengill breyta