Kólumbusarheimssýningin

World's Columbian Exposition eða Kólumbusarheimssýningin var heimssýning sem haldin var í Chicago árið 1893 í tilefni af því að 400 ár voru liðin frá því Kristófer Kólumbus kom fyrst til Nýja heimsins 1492. Miðpunktur sýningarinnar var stórt stöðuvatn sem átti að tákna hina löngu leið Kólumbusar yfir Atlantshafið. Samkeppni um að halda sýninguna stóð milli New York-borgar, Washington D.C., St. Louis og Chicago sem hreppti hnossið. Sýningin var vel sótt og vakti mikla athygli. Hún hafði mikil áhrif á byggingarlist, hreinlætismál, sjálfsmynd Chicago-borgar og trú samtímafólks á framfarir í iðnaði.

World's Columbian Exposition í Chicago: Horft framhjá Styttu lýðveldisins að stjórnarbyggingunni.

Setningarhátíðir voru haldnar 21. október 1892 en sýningin var ekki opnuð almenningi fyrr en 1. maí 1893. Sýningin stóð til 30. október 1893. Auk þess að minnast 400 ára frá fyrstu ferð Kólumbusar hafði sýningin þann tilgang að sýna fram á endurreisn Chicago eftir brunann mikla sem eyðilagði stóran hluta borgarinnar árið 1871. Matthíasi Jochumssyni, sem heimsótti sýninguna, þótti enda mikið til borgarinnar koma og lýsti sérstaklega tækninýjungum eins og lyftum, símanum, vatnslögnum í hverju húsi og sporvögnum.

Á sýningunni var sett upp eftirmynd af klaustrinu í La Rábida á Spáni þaðan sem Kristófer Kólumbus lagði af stað til Nýja heimsins. Þar inni var sýning helguð landafundunum. Skipuleggjendur sóttu fast að fá Flateyjarbók lánaða frá Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn. Þeir buðust til að flytja handritið með herskipi og borga undir fylgdarmann, sem ætlunin var að yrði Valtýr Guðmundsson sagnfræðingur. Um þetta spunnust miklar deilur í Danmörku og á endanum var ákveðið að hafna tilboðinu. Í staðinn var gefin út í fáum eintökum bók í fullri stærð með ljósprentun af þeim síðum Flateyjarbókar sem innihalda Vínlandssögurnar, Eiríks sögu og Grænlendinga sögu, sem hægt væri að stilla út á sýningunni.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.