Í virkri skilyrðingu er gengið út frá því að einstaklingurinn sé virkur í umhverfinu, það er hann er hluti af umhverfinu. Hver hegðun á sér þannig afleiðingu og sú afleiðing hefur áhrif á hvort, og þá hversu oft, einstaklingurinn endurtekur þá hegðun. Þær afleiðingar sem auka eða styrkja þá hegðun sem þær fylgdu kallast styrkjar. Hegðun sem leiðir til styrkir eykst en önnur hegðun minnkar.

Dæmi um þetta er rotta í tilraunabúri (sem einnig hefur verið kallað Skinnerbúr, kennt við sálfræðinginn B. F. Skinner) þar sem slá er á einum vegg búrsins. Ef rottan styður framfótunum á slána kemur matur niður í lítinn dall. Virkið (það er virka hegðunin) er það sem rottan gerir rétt fyrir styrkinn, það er sú hegðun að styðja framlöppunum á slána. Afleiðingin, hér maturinn, veldur því að rottan fer að styðja mun oftar á slána en áður.

Ef maturinn hættir að fylgja því að ýta á slána mun rottan fljótlega hætta því. Þá er talað um slokknun hegðunarinnar.

Ef aftur er farið að styrkja hegðun sem búið var að slökkva mun hún aukast mun hraðar en það tók í fyrstu að koma henni á. Þegar spá á fyrir um breytingar á hegðun verður því að taka mið af styrkingarsögu lífverunnar. Styrkingarsaga er einfaldlega það hvernig hegðun lífverunnar var styrkt í fortíðinni og hún hefur áhrif á núverandi hegðun lífverunnar og breytingar á henni í framtíðinni.

Nauðsynlegt er að að ákveða hvaða styrkjar eru áhrifaríkastir og auðveldast að koma á. Styrkingarsnið vísar til mynsturs styrkjanna, svo sem hvort þeir fylgi hverri svörun, annarri hvorri, í tíunda hvert skipti og svo framvegis. Einnig geta styrkingarsnið byggst á ákveðnum tíma á milli styrkja í stað fjölda svarana. Því er greint á milli tveggja styrkingarsniða, tímastyrkingar og hlutfallsstyrkingar.